Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þingræðisregla stjórnarskrárinnar er skýr. Á meðan meiri hluti þings ver ráðherra vantrausti ber allur meiri hlutinn ábyrgð á honum og hans störfum, ekki bara flokkssystkin ráðherrans. Ég hvet alla þingmenn á Alþingi Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, til að hugsa hér á eftir fyrst og fremst til framtíðar, fyrst og fremst til stjórnskipunar landsins, hugsa til virðingar Alþingis og þess að landslög séu virt. Það skiptir máli að við sendum skýr skilaboð um einmitt það út til þjóðarinnar. Ég hvet alla þingmenn til að greiða atkvæði með meiri hagsmunum frekar en minni í þágu þings, í þágu þjóðar.