Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[13:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um ríkisborgararétt skal Útlendingastofnun skila umsögn til Alþingis. Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar og hefur undanfarna áratugi gert slíkt tvisvar á ári og gerir slíkt með lögum. Það kemur því ekki á óvart að tvisvar á ári þurfi Útlendingastofnun að skila Alþingi Íslendinga umsögn um þær umsóknir sem þangað berast. Það eru fleiri stofnanir og ráð sem þurfa að gera slíkt við þingmál: Fjármálaráð þarf að skila Alþingi áliti við þingmál sem hér eru til meðferðar. Megum við t.d. búast við því að hæstv. fjármálaráðherra banni fjármálaráði að skila Alþingi nauðsynlegum umsögnum við þingmál sem berast til Alþingis? Megum við búast við því að slíkt verði uppi á teningnum næst þegar Sjálfstæðisflokknum og fylgiflokkum Sjálfstæðisflokksins hugnast slíkt? (Forseti hringir.) Hugsið aðeins um hvað þið eruð að gera, kæru þingmenn. (Forseti hringir.) Við erum að skapa fordæmi til framtíðar. — Ég segi já.