Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:30]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna hér sérstaklega framkominni þingsályktunartillögu matvælaráðherra um landbúnaðarstefnu, og seinna ræðum við um matvælastefnu. Í öllum aðalatriðum er ég mjög sáttur við þá tillögu sem hæstv. matvælaráðherra mælir hér fyrir enda, rétt eins og hún kom vel inn á í framsögu sinni, byggir hún á mjög breiðri vinnu og kannski miklu meira samráði en við áttum okkur á við fyrstu ásýnd þessa máls. Hæstv. ráðherra rakti það ágætlega í sinni framsögu, ég tek undir það og vek athygli á því.

Kannski má segja að þessi hluti mótunar landbúnaðarstefnu, sem raunverulega hefst 2018, eigi rætur sínar í miklum átökum hér í þinginu við afgreiðslu búvörusamninga 2016. Ég tók þátt í þeirri afgreiðslu sem nefndarmaður í hv. atvinnuveganefnd og sem bóndi, sem ég hef verið alla mína þingtíð og var áður í starfi á vettvangi Bændasamtakanna. Ég verð að segja að þau átök sem þá voru í þessum þingsal og sú umræða sem var um landbúnað var sannarlega — ef ég má orða það svo, virðulegur forseti — kjaftshögg fyrir landbúnaðinn. Með ákveðnum hætti getum við horft þannig á veruleikann að við séum komin á ákveðna endastöð með það hvernig við höldum utan um landbúnaðinn. Ég held að við verðum að viðurkenna að þá vorum við komin á ákveðna endastöð og hins vegar það hversu fjarlægir hagsmunir landbúnaðar og bænda eru orðnir í almennri samfélagsumræðu. Þetta var tilfinning mín þá, 2016.

Síðan gerist það að þáverandi landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, felur mér, ásamt öðrum hv. fyrrverandi þingmanni, að leiða ákveðna vinnu. Við göngum í þessa sviðsmyndavinnu sem greint er frá í greinargerð með frumvarpinu og höldum opna fundi víðs vegar um landið og fjöldi fólks kemur til samtals um landbúnaðinn. Þess vegna vil ég staðfesta orð hæstv. matvælaráðherra, að það hafa allir áhuga á landbúnaði og það vilja allir láta sig landbúnað varða.

Ég vil líka segja, standandi í þessum ræðustól og hafandi tekið þátt í störfum Alþingis í áratug, að allir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem ég hef átt samleið með hafa hugað að hagsmunum landbúnaðarins. Við höfum nálgast þetta úr sitthvorri áttinni og ber ég að sjálfsögðu virðingu fyrir þeim mörgu sjónarmiðum sem eru í þeim efnum. Ef einhvers staðar á að snerta þjóðarsálina með áþreifanlegum hætti þá tölum við um bændur og landbúnað, það er mín tilfinning. En þetta uppþot 2016 var sannarlega þess virði að við færum að búa til og undirbúa setningu landbúnaðarstefnu sem hæstv. matvælaráðherra mælir hér fyrir í dag og ég held að fangi í öllum aðalatriðum þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu síðustu misseri og ár um það hversu gríðarmiklu hlutverki landbúnaður gegnir í samfélaginu. Þótt við mælum eða teljum ekki fjölda bænda núorðið í tugum þúsunda í fjölmennri atvinnugrein, þá byggir stór hluti atvinnulífs úti um allt land á framleiðslu bænda og einn stærsti iðnaður Íslendinga, matvælaiðnaður, er einmitt tilkominn vegna frumframleiðslu íslenskra bænda.

Afkoma bænda er verkefnið alls staðar þar sem ég þekki til. Ég veit satt að segja ekki, virðulegur forseti, um nokkurt einasta land sem við getum bent á og sagt að afkoma bænda sé þar góð. Hæstv. matvælaráðherra vitnaði til funda sem hún hefur átt með sínum kollegum þar sem þetta verkefni er stöðugt uppi á borðum. Þetta finnst mér að við ættum kannski að ræða hérna: Af hverju er það svo með afkomu bænda að hvergi í heiminum sé hægt að benda á að hún sé virkilega góð í þessari mikilvægu atvinnugrein? Hvað hefur orðið til þess að sú staða er komin upp? Ég segi að ein mesta ógæfa vestræns landbúnaðar var sú að verða fórnarlamb þess á árunum eftir seinna stríð að vera notaður sem kjarajöfnunartæki. Þetta er afstaða sem ég hef mótað í gegnum tíðina og má kannski segja að hún komi úr hörðustu átt, en það er samt tilfinning mín að ákveðin ofstýring hafi verið í gangi — við vorum að nota landbúnaðinn til að jafna kjör í landinu sem var vel gert, vel meint og nauðsynlegt á sínum tíma, við vorum m.a. hér á Íslandi að beita niðurgreiðslum og kerfunum til þess að komast í gegnum þunga og erfiða kjarasamninga og var það ekki bara gert hér á Íslandi heldur í hinum vestræna heimi — og landbúnaðarkerfi dagsins í dag byggist á þeim grunni.

Kannski er of mikið að segja að það sé okkar mesta ógæfa en þegar við horfum á valdastöðu bóndans í dag, frumframleiðandans, og að hann beri minnst úr býtum, þá held ég að við verðum að viðurkenna söguna með þessum hætti og fikra okkur síðan yfir í það hvernig við getum breytt þessari valdastöðu. Þegar ég segi valdastöðu er ég einfaldlega að vísa til þess hvernig við skiptum kostnaðinum og ágóðanum af því að framleiða matvöru. Það er vitundarvakningin sem við þurfum á að halda: Það er ekki sjálfgefið í nútímaheimi að alltaf verði og vilji verða til bændur til að takast á við það flókna og erfiða starf sem er að vera bóndi, í heimi sem býður upp á önnur eins lífsþægindi og við þekkjum og munum vonandi sjá til langs tíma.

Tímarnir hafa breyst og þannig þarf landbúnaðurinn líka að breytast. Ég tek undir áherslur matvælaráðherra í þessari stefnu, að við erum að horfa til allt annarrar tækni. Við erum að horfa til nýsköpunar, rannsókna, þekkingar og vísinda; innleiðingar stafrænnar tækni. Eins og matvælaráðherra kom vel inn á í ágætri ræðu sem hún flutti við setningu búnaðarþings fyrr í morgun þá er stafræna tæknin ekki síður að breyta landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum.

Þetta var almennt um stefnuna. Varðandi einstök atriði hennar þá get ég drepið niður fæti víða en kýs að afmarka mig við örfáa staði. Ég vil rifja upp að landbúnaðarstefna hefur í eðli sínu verið til; við getum vitnað til tímamótalöggjafar frá 1923 og aftur 1945–6, framleiðsluráðslaganna í kringum 1960, löggjafar frá um 1980 þar sem við tókum á offramleiðslu í landbúnaði, og síðan til viðbragða, löggjafar og samningagerða við bændur sem við höfum leitt frá 1990 þar sem hin alþjóðlegu áhrif fara að hellast yfir íslenskan landbúnað. Íslenskur landbúnaður er ekki lengur einangruð atvinnugrein uppi á hinu kalda Íslandi heldur hafa alþjóðastraumarnir flætt yfir okkur og frá þeim tíma höfum við sett íslenskan landbúnað í allt annað samkeppnisumhverfi en okkur er enn í dag tamt að hugsa um hann. Hvort sem við horfum til mjólkur-, kjöt-, grænmetis- eða annarrar framleiðslu landbúnaðarins, þá á hann í alþjóðlegri samkeppni; hann á í samkeppni við önnur lönd þar sem lífskjör eru ekki eins góð og á Íslandi, svo eitt dæmi sé tekið, sem hafa aðra möguleika vegna framleiðsluaðstæðna, loftslags, ræktunarskilyrða, fjölmennis og hagkvæmni stærðarinnar. Allt eru þetta þættir sem við verðum að viðurkenna og vinna með til að halda utan um íslenskan landbúnað. Þá gengur ekki lengur að segja að svona eigi þetta bara að vera áfram og að við viljum gera betur.

Það ætlum við ekki að gera með þessari landbúnaðarstefnu og þess vegna erum við komin með hana inn í þingið. Við getum beitt fleiri atriðum og þáttum en koma fram í stefnunni. Þar má nefna að við ættum ekki einungis að horfa til beins stuðnings við bændur þegar við tölum um ættliðaskipti eða nýja kynslóð í landbúnaði og ættum að leyfa okkur að hugsa það í víðara samhengi, t.d. með því að beita skattkerfinu. Matvælaráðherra bendir síðan á aðrar stefnur eins og orkustefnu. Allt eru þetta þættir sem þurfa að fléttast saman til þess að við komumst á þann stað að gera landbúnaðinn aftur samkeppnishæfan um ungt fólk. Það er lykilatriði sem við eigum að tala um. Undir lok þessarar ræðu vil ég segja, sem ég fæ allt of stuttan tíma fyrir því að málið brennur á mér, að ég vil ekki lengur tala um að það sé vandamál fyrir ungt fólk að hefja búskap. (Forseti hringir.) Við verðum að horfa á þetta út frá rekstrarhæfi jarðanna og búanna. Ef við gerum það þá hef ég ekki áhyggjur af því að ungt fólk vilji ekki hasla sér völl í íslenskum landbúnaði.