Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég segi bara að það sem hv. þingmaður er raunverulega að fitja upp á hér varðandi rafmagnskostnað er að við þurfum á hverjum tíma alltaf einhverjar lausnir og einhverja stýringu á framleiðsluskilyrðum landbúnaðar. En það sem ég er meira upptekinn af er hvers vegna við höfum ekki þá stöðu að við ryðjum með íslenskri búvöru annarri búvöru frá, vitandi um heilnæmi hennar. Áherslupunktar í þessari stefnu eru um heilnæmi matvæla. En þá verðum við líka að geta staðið við það heilnæmi sem við segjum að sé. Það er líka vel tekið utan um það í þessari stefnu og ekki síður í matvælastefnu sem við ræðum hér á eftir.

Ég vil líka segja, vegna pólitíkur um það hvernig við styðjum landbúnað, að auðvitað er það ekkert annað en niðurgreiðsla sem hv. þingmaður er að leggja til, þ.e. að stýra verði á rafmagni. Við munum þurfa að taka þau verðmæti einhvers staðar, einhver orkuframleiðandi yrði ekki sisvona ánægður með það, bara af því að þetta er grænmeti, að afhenda rafmagnið með þessum hætti, hann myndi vilja fá það bætt. Ég og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir sóttum allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í haust og fengum tækifæri til að heimsækja FAO, Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, og rétt eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson kom inn á í sinni ræðu áðan eru vindar að breytast í þessum efnum, hvernig við styðjum landbúnað, vegna þess að áhyggjur manna snúast um að það verði ekki til nógu mikill matur. Og alla vega miðað við þær upplýsingar sem við hv. þingmaður fengum á þessum fundi þá undrar mig hljóðið í almennri umræðu um framtíðarhorfur í matvælaframleiðslu á Íslandi, umræðan um almennar horfur í matvælaframleiðslu heimsins nær einhvern veginn ekki hingað heim. Áhersla FAO var: Beinn stuðningur við landbúnað. Við verðum líka að viðurkenna varðandi það sem menn kölluðu verndartolla að við höfum ekki uppfært þau verðmæti í áratugi þannig að svokallaðir verndartollar eru nánast engin vernd orðin (Forseti hringir.) fyrir íslenskan landbúnað í dag. En samband bænda og neytenda, upplýst framsetning á búvöru og sterkt samband þar á milli, (Forseti hringir.) held ég að sé lykillinn og fjöregg íslensks landbúnaðar, ekki síður en afkoma bændanna sjálfra.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk.)