Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Orð fjármálaráðherra sýna að hann tekur það til sín að markaðurinn hefur misst trú á að Sjálfstæðisflokkurinn geti stýrt efnahagsmálunum, að hann geti náð verðbólgunni niður. Ný fjármálaáætlun geymir nefnilega engar raunverulegar aðgerðir til að hagræða. Útgjaldapólitíkin er enn sú sama. Það er ekkert talað um að lækka svimandi háan vaxtakostnað íslenska ríkisins, sem myndi hjálpa við að ná niður verðbólgu. Ísland ætlar áfram að blanda sér alvarlega í baráttuna um Evrópumeistaratitilinn í vaxtakostnaði. Verðbólga er skilgreind sem versti óvinurinn en aðgerðir til að berjast gegn höfuðóvininum vantar, eru fyrst á dagskrá 2024–2028. Ríkisstjórnin ætlar þá að skoða sameiningu stofnana eftir einhver ár og kannski hærri veiðileyfagjöld einhvern tímann seinna.

Þetta hjálpar auðvitað ekki ungu fólki á húsnæðismarkaði núna. Fjármálaáætlunin er eins og geggjað aðhaldsprógramm sem byrjar 2024 og skilar kannski þjóðinni í kjólinn fyrir jólin 2028. Þrátt fyrir öll varnaðarorð heimsins valdi fjármálaráðherra að skila fjárlögum fyrir þetta ár með 120 milljarða halla. Hann talar núna um að frumjöfnuður sé að batna. Það er fáránlegur mælikvarði, eins og að segja að afkoma heimilanna sé góð áður en búið er að taka með í reikninginn afborganir af lánum. Það er auðvitað heildarafkoman sem skiptir máli og það á að reka ríkið á yfirdrætti út árið 2027. (Forseti hringir.)

Hvar eru markmiðin um að lækka skuldir? Hvar eru markmiðin um að lækka viðskiptahalla? Svörin við þessum spurningum geta orðið til þess (Forseti hringir.) að fjármálaráðherra endurheimti trú fólks á því að hann ráði við verkefnið.