Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:29]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun 2024–2028. Það er víða komið við þegar maður flettir í gegnum þennan mikla doðrant sem barst okkur í hendur í gær. Ég tek undir með hæstv. ráðherra fjármála sem kom inn á það í sinni ræðu fyrr í dag að það væri kannski æskilegt að einfalda verkið og gera það aðgengilegra, ég vil bara taka undir það.

Ég vil byrja á í minni ræðu, virðulegi forseti, að vitna til orða hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra, varaformanns Framsóknarflokksins, þar sem hún segir:

„Stóra verkefnið samhliða breyttum aðstæðum er að ná niður verðbólgu sem er helsti óvinur heimila og fyrirtækja í landinu. Aðhald og skýr forgangsröðun er meginstef í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ásamt því að styðja við brýn verkefni og standa vörð um almannaþjónustuna. Ríkisfjármálin þurfa að vinna með peningastefnu Seðlabankans til að ná jafnvægi.

Fjármálaáætlun til næstu fimm ára sýnir þá stefnu stjórnvalda að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að ná niður verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjónustuna, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífskjör almennings. Skuldahlutföll ríkissjóðs lækka á tímabilinu og afkoma batnar.“

Það er hægt að segja að þessi orð rammi svolítið vel inn það sem við erum að ræða hérna í dag. Við stöndum á vissum tímamótum. Hér er há verðbólga og vissulega er hún farin að bíta. Þeir sem voru á ársfundi Seðlabankans í gær og hlýddu á ræðu seðlabankastjóra, Ásgeirs Jónssonar þar sem hann fór vel yfir þetta og yfir söguna, hvernig tekist er á við verðbólgu, heyrðu að það er ekki bara einkamál ríkisstjórnarinnar, það er ekki einkamál Seðlabankans. Það er mál okkar allra hvernig við tökumst á við það. Jú, vissulega er til ákveðið stýritæki sem er notað, það eru hækkaðir stýrivextir og síðan er það ábyrgt, mér finnst það bara ábyrgt, hjá núverandi ríkisstjórn að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem gætt er aðhalds á nær öllum málefnasviðum utan tveggja málefnasviða þar sem er verið að verja grunnþjónustuna og þar er verið að bæta aðeins í.

Af ræðum hv. þingmanna hér fyrr í dag má svo sem ætla að sumum þyki ekki nóg að gert. Öðrum þykir of mikið gert og ekki gert nógu rétt eða hvernig sem það er. En þetta er alla vega það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og þetta er boðskapurinn sem við ætlum að vinna eftir. Þetta er það sem lagt er til að við vinnum eftir. Það er mikil vinna fram undan hjá hv. fjárlaganefnd að fara í gegnum verkefnið á næstu misserum þar sem við fáum til okkar gesti og og förum yfir þetta. En ég er alveg viss um að það verður þannig að kallað verður eftir því úr öllum stofnunum að það þurfi meira fjármagn. En þá þurfum við að sýna það sjálf, við sem sitjum hér á hinu háa Alþingi, við þurfum líka að sýna ábyrgð í því hvernig fjármunum ríkisins er varið og þurfum að sýna aðhald á öllum sviðum. Þó svo að við séum að bæta í vissa liði í grunnþjónustunni þá þýðir það ekki að það sé einhver óráðsía í gangi, langt frá því. Það þarf á þeim sviðum líka að gæta aðhalds og það hefur verið gert, sérstaklega innan heilbrigðiskerfisins, þar hefur verið gætt aðhalds á mjög mörgum sviðum.

Hér er talað um að menn séu ekki að meta stöðuna rétt. Við séum ekki að nálgast verkefnið á réttan hátt. Ég held að við í meiri hlutanum þurfum að taka gagnrýnina til okkar, það er hlutverk okkar hér inni að skiptast á skoðunum og það er líka hlutverk okkar að velta því fyrir okkur hvernig best er á málum haldið.

Ég ætla að leyfa mér það, virðulegur forseti, að grípa hérna niður í þá miklu biblíu sem fjármálaáætlunin er. Þetta er alla vega mjög líkt biblíu að þykkt, ekki að innihaldi. Hér er farið yfir áherslur og stefnumið og hvernig þessi umskipti hafa orðið á mjög stuttum tíma. Við fórum í mikinn öldudal á Covid-tímabilinu og síðan kemur stríðið og þessi verðbólga er ekkert séríslenskt fyrirbrigði, hún er alls staðar í kringum okkur. En það sem er áhugavert að sjá hér á töflum á bls. 16 í fjármálaáætluninni, þar sem er farið yfir frumjöfnuðinn, er hvernig efnahagskerfi okkar bregst við á mjög skarpan hátt. Vissulega hefur þar innstreymi fjármagns mikið að segja, ferðaþjónustan kemur náttúrlega hér inn með gríðarlegum krafti og auk þess eru aðrar útflutningsgreinar eins og t.d. ál- og fiskiðnaður ásamt öðrum atvinnugreinum að koma inn með miklar tekjur. Það skapar þetta ójafnvægi sem hér er á markaði og auk þess er hluti af þessu ójafnvægi sem við erum að eiga við afleiðingar þess að menn héldu að sér höndum, almenningur hélt að sér höndum í Covid, bæði í ferðalögum og framkvæmdum, þannig að það var mikill uppsafnaður sparnaður sem síðan leitar eftir því að fara út þegar hömlunum er aflétt. Það er bara rúmt ár síðan, það er nú ekki lengra síðan, að öllum sóttvarnahömlum var létt. Manni finnst eins og það hafi gerst fyrir mörgum árum síðan en það er bara eitt ár síðan það gerðist. Þá tók efnahagskerfið heldur betur við sér.

Það sem kemur vel fram í áætluninni snýr að frumjöfnuði og auk þess er unnið að lækkun skulda, sem er mjög jákvætt. Það er farið mjög varlega af stað. Við erum að hliðra til verkefnum. Við erum að fresta verkefnum sömuleiðis. Mörg þeirra verkefna sem verið er að fresta hefði verið mjög gott að fara í en þetta er skipunin, menn þurfa að halda að sér höndum og draga úr. Vissulega er ekki eins og verið sé að setja allt á ís. Það eru ákveðnar framkvæmdir í gangi og má nefna margar framkvæmdir í samgöngum sem eru í gangi, það er ekki verið að fresta þeim sem verið er að byrja á, það er verið hliðra til nýframkvæmdum milli ára og svo svona mætti lengi telja. En það að halda því fram að menn séu hér að setja allt á ís og séu ekki að standa við ákveðin markmið — mér gremst það þegar verið er að halda því fram að menn séu að svelta grunnþjónustuna af því að því fer fjarri. (Gripið fram í.) Því fer fjarri. Ég vil leyfa mér það, virðulegi forseti, að endurtaka það sem ég sagði hér áðan í andsvari við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson, að heilbrigðiskerfið fékk á síðustu fjárlögum 12 milljarða aukalega árið 2023 og í þessari áætlun er ekki aðhaldskrafa á málefnasviðið. Það er verið að bæta við 4–5 milljörðum árlega þarna inn. Er það nóg eða getum við gert hlutina betur? Vafalaust getum við gert hlutina mun betur. Ég treysti því og veit að það er verið að vinna að mjög mörgum góðum málum innan heilbrigðisgeirans sem snúa að því hvernig við mönnum okkur betur, varðandi hagræðingu á aðgerðum, varðandi samninga við sérgreinalækna og fleira til að flýta okkur áfram. Það að koma í ræðustól og segja að heilbrigðiskerfið okkar sé óburðugt, það sé ekki gott o.s.frv., er að mínum dómi rangt. Það er rangt að segja það í ljósi þess sem á undan er gengið. Það er mjög áhugavert í því ljósi að horfa á Storm, þættina sem hafa verið í ríkissjónvarpinu núna upp á síðkastið, þar sem er farið yfir söguna í þessu tilliti. Þar kemur fram hvernig viðbragðið var, hvernig heilbrigðiskerfið gat brugðist við á ótrúlegan hátt og sýnir það líka hversu mikill mannauður sem starfar innan heilbrigðissviðsins.

Virðulegur forseti. Það er alltaf þannig, í hverju einasta tilfelli, að við getum gert betur. En við þurfum líka að sýna ráðdeild í því sem við erum að gera. Af hverju? Við erum bara að reka fyrirtæki og við þurfum að taka það föstum tökum og núna eru vindarnir þannig að við þurfum að skipta um gír, hægja á og síðan vitum við líka, við þekkjum það úr sögunni, að við gerum spár fram í tímann og yfirleitt eru spárnar sem við gerum og þær spár sem við höfum gert undanfarin ár hafa yfirleitt verið vanáætlaðar. Mér kæmi það ekki á óvart að að ári, þegar við fjöllum um næstu fjármálaáætlun, verði staðan töluvert önnur. Þá er líka spurningin hvar frumjöfnuður verður staddur, hvernig skuldirnar verða o.s.frv., hvernig hagkerfið bregst við og auk þess hvernig okkur tekst við að glíma við verðbólguna. Það er náttúrlega stærsta verkefnið hjá okkur núna og fram undan er þessi barátta, hvort sem hún er á höndum ríkisins, Seðlabankans eða almennings.

Ég vil að lokum segja það að vissulega bítur verðbólgan mjög misjafnlega og það þarf að gæta verulega að þeim hópum sem þar eru undir og það er lítill hópur enn sem komið er á húsnæðismarkaði sem kemur til með að hafa það mjög erfitt. Við vitum það. Auk þess eru það lítil og meðalstór fyrirtæki og þar verðum við að horfa til þess að viðskiptabankarnir verða sömuleiðis að sýna ákveðna ábyrgð þegar að því kemur.