fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún spyr hvort ég sé sammála gagnrýni um að í þessari fjármálaáætlun felist ekki skilaboð um að hér sé verið að beita þeirri hörku sem þarf til að ráða við verðbólgu. Ég ætla aðeins að segja að mér kemur þessi gagnrýni úr þeirri átt ekki þannig séð á óvart. Sjónarmið Samtaka atvinnulífsins hefur verið, (ÞorB: Og ASÍ.) virðulegur þingmaður, hefur ævinlega verið, eins og mér finnst einmitt vera þeirra hlutverk, að hvetja til aðhalds og sparnaðar og einfalda ríkisreksturinn, gera hann skilvirkari. Mig langar að segja, sem svar við þessum vangaveltum hv. þingmanns í hennar andsvari, að væntingarnar sem fólk er að gera birtast m.a. í kröfugerð við kjarasamningaborðið. Við erum að mínu viti ekki að sjá sérstakar væntingar eða sérstök sjónarmið um að fólk hafi miklar væntingar um að verðlag sé að hjaðna miðað við þær kaupkröfur sem þar eru gerðar. En hlutverk vinnumarkaðarins er mjög mikilvægt og við eigum að hlusta á sjónarmið vinnumarkaðarins, hvort sem það er frá hendi launþega eða atvinnurekenda. Ég veit aftur á móti að verkefnið að spara í ríkisrekstri er býsna snúið og þó ég ætli ekki að kveinka mér undan því þá mun það aldrei gerast nema með svona meginsjónarmiðum sem rakin eru í þessari fjármálaáætlun um hvernig við ætlum að beita aðhaldi, m.a. með fækkun stofnana, að einfalda reksturinn og gera hann skilvirkari og ódýrari. Það er stóra verkefnið. Hinu hef ég oft velt fyrir mér á þeim áratug sem ég hef setið á hinu háa Alþingi, þ.e. hvernig við myndum gera þetta ef við værum að koma að auðu blaði. Kannski verður einhvern tíma mynduð ríkisstjórn sem tekur við í upphafi kjörtímabils og segir einfaldlega: Blaðið er autt, við ætlum að skipuleggja þetta upp á nýtt. (Forseti hringir.) Það væri fyrir mér tækifæri til að minnka umsvif ríkisrekstrar í stórum stíl. En það eru spurningar sem ég tek ekki þátt í að spyrja eða svara.