Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita að ekki séu allir flokkar á Alþingi sammála því að það eigi að vera sjálfstætt markmið að sameina stofnanir. Við þær aðstæður sem eru uppi núna hefði maður haldið að hér væri pólitískt dauðafæri til að ná fram einhverjum þeim breytingum, einfaldlega vegna þess að efnahagslegar aðstæður kalla beinlínis á það. Ég fæ aðeins þá tilfinningu þegar ég hlusta á hæstv. fjármálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og jafnvel líka þingmenn Framsóknarflokksins, að í þessu máli hafi það gerst að Vinstri græn hafi verið með yfirhöndina um það hvernig þessi fjármálaáætlun lítur út. Oft sitjum við hér í þessum þingsal og hlustum á hið gagnstæða en hér er óskaplega almennt hjal, almennt tal um t.d. sameiningar á ríkisstofnunum. Við höfum engar útfærslur. Það vorum við reyndar heldur ekki með í haust þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp sitt. Það er af þeirri ástæðu (Forseti hringir.) sem ég hef töluverðar áhyggjur af því að þessar hugmyndir sem eru í fjármálaáætluninni séu ekki líklegar til að raungerast, hvað þá innan þess tímaramma sem efnahagsástandið krefst.