Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi í ræðu minni að við ættum kannski að ræða miklu meira hvernig við stöndum að sameiningu stofnana, hvaða skapalón við getum haft til þeirra hluta og hvernig við ætlum að mæla slíkan árangur. Ég ætla ekki að segja að það sé eitthvert vandamál að taka undir þau sjónarmið að Vinstri græn hafi einhvern veginn orðið ofan á í þessum efnum því það sem við erum einfaldlega að gera hér er að halda utan um það sem við jukum við fyrir nokkrum árum síðan, við upphaf þessarar ríkisstjórnar eða þessa ríkisstjórnarmynsturs, þar sem við vorum að bæta í almannaþjónustu og heilbrigðiskerfið. Langar mig í því sambandi að rifja upp að þær viðbætur sem við vorum að bæta hér við á milli umræðna um fjárlög í haust voru fyrst og fremst til heilbrigðiskerfisins og slíkra þátta sem við erum í öllum aðalatriðum sammála um hér í þessum þingsal að við eigum að verja. Hvort það sé trúverðugt sem við erum að leggja fram í þessari fjármálaáætlun um sameiningu stofnana finnst mér alveg eðlileg spurning. En á móti segi ég að við munum ná árangri (Forseti hringir.) vegna þess að það eru ákveðnir parametrar, ákveðin sjónarmið, ákveðið skapalón sem við þurfum að hafa. Ég vísa þá fyrst og fremst til þess að á (Forseti hringir.)undanförnum árum höfum við t.d. með stafvæðingu náð að spara verulega útgjöld hins opinbera. Það er reyndar sparnaður sem okkur hefur ekki tekist að gera sýnilegan en ætti að vera sýnilegur.