Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sömuleiðis hv. þingmaður, ég get vottað það sama um samstarfið við hv. þingmann. Það er kannski fullsnemmt að halda minningarathafnir. En mig langar í seinna andsvari að spinna þráðinn aðeins áfram. Hluti af vandanum og verkefninu sem við stöndum frammi fyrir er að við erum með margar stofnanir sem hafa mikið húsnæði til umráða — mig langar bara að kasta því inn í umræðuna, bara nýta tækifærið — og hafa ekki allar góða möguleika á að láta það af hendi. Það er hin hliðin á því að þétta starfsemi stofnana, sameina stofnanir — hvað á að gera við húsnæðið sem losnar? Þegar við förum að vinna fjármálaáætlunina þá er þetta umræða sem við eigum líka að þora að taka. Það er hægt að breyta því með þeim hætti að selja þessar eignir frá okkur en sumar af þessum eignum eru einfaldlega húsnæði sem við eigum ekki að selja eða ætlum ekki að selja — er einfaldlega þannig byggt, er þannig hús, nýtur ákveðinnar verndar eða slíkt. Það þarf að vera hin hliðin á þessari umræðu allri hvernig við ætlum að koma því í not og nýta framtíðarverðmæti þar inni.