Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hélt að þingmaðurinn myndi nýta allar þessar tvær mínútur svo ég var alveg rólegur. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við munum ekki byggja 1.200 íbúðir á árinu 2023 eða 2024. Við höfum verið að setja upp sviðsmyndir sem byggja á því hvað sé raunverulega hægt. Þessi markmið um 4.000 íbúðir og allt að 35% íbúða, þ.e. 30% sem eru þá byggðar sem almennar íbúðir eða með hlutdeildarlánum og svo 5% að auki í félagslega kerfinu sem gerir um 1.400 íbúðir — við sjáum ekki fram á að við náum þessu að fullu fyrr en kannski 2026 eða 2027. Við teljum okkur í dag vera nægjanlega fjármögnuð með þessa 4 milljarða í stofnframlögum í ár og næsta ár til að geta byggt það sem einfaldlega verður raunhæft að geta byggt. Hvað það eru nákvæmlega margar íbúðir þori ég ekki alveg að fullyrða, en ef ég man rétt eru það einhverjar 150 hlutdeildaríbúðir og það er sem sagt þar fyrir utan, af því það eru auðvitað lán, það er ekki inni í þessum hluta, það er inni í Húsnæðissjóði. En við erum að stefna að því markmiði að þetta séu um 720 stofnframlagsíbúðir og eitthvað um 540 hlutdeildaríbúðir þegar við náum þessum sirka 1.200 íbúðum eða á því bilinu, 700 og 500 er 1.200, sirka á því bilinu. En við trúum því að við getum á næstu árum nálgast einhverjar 400 íbúðir, ef ég man þetta rétt. En ég þarf að tékka á því nákvæmlega hvað það eru margar íbúðir, enda mun það fara eftir, eðlilega, kostnaðarverði þeirra.