Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í stöðu fjölmiðla á Íslandi og hvort ríkisstjórnin sé með einhverja framtíðarsýn hvað það varðar. Vegna afar skamms tíma hér þá óska ég eftir að hæstv. ráðherra eyði ekki dýrmætum tíma sínum í að þylja upp eitthvað sem hefur verið gert í fortíðinni heldur einbeiti sér að framtíðinni. Fjölmiðlar á Íslandi þurfa bandamann í stjórnvöldum og nú þegar hver fjölmiðillinn á fætur öðrum leggur upp laupana, þrátt fyrir fögur fyrirheit ráðherra málaflokksins, hljótum við að spyrja okkur hvort það sé eitthvert plan. Það kom út býsna góð og yfirgripsmikil skýrsla árið 2018 um fjölmiðla og tillögur um hvernig mætti að efla þá. En það verður að viðurkennast að viðbrögð stjórnvalda hafa verið harla fálmkennd og opinberaðist eiginlega fullkomlega í desember síðastliðnum þegar fjárlaganefnd tók ein og sér ákvörðun um að skutla 100 milljónum aukalega inn í málaflokkinn — eða nei, reyndar bara til stuðnings einum fjölmiðli, af því bara.

Herra forseti. Með því að fara í svona ómarkvissar aðgerðir eins og gerst hefur á sama tíma og fjölmiðlum fækkar hratt þá virðist sem stjórnvöldum hafi tekist að valda meira tjóni en gagni. Við bregðumst ekki við rauðum flöggum, það hefur ekkert verið gert til að minnka hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði, það hefur ekkert verið gert til að auka fyrirsjáanleika stuðningskerfisins til einkarekinna fjölmiðla, ekkert gert til að skattleggja stjórnlausar auglýsingatekjur erlendra dreifiveita vegna auglýsingakaupa stjórnvalda m.a. og einkaaðila sem kaupa upp auglýsingar fyrir á annan tug milljarða á hverju ári. Ég spyr því hæstv. menningarráðherra og ráðherra fjölmiðla vegna þess að ég sé ekki í fjármálaáætluninni neina framtíðarsýn fyrir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, ég sé bara að það eigi að festa krónutölu næstu fjögur ár: Er eitthvert plan?