Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að það er eitthvað í bígerð. Nú hefur hæstv. ráðherra verið ráðherra málaflokksins í að verða sex ár þannig að það er gott að það er eitthvað í bígerð núna. Ég fagna því að það sé verið að hugsa um aukinn fyrirsjáanleika í þessum málaflokki af því að það skiptir mjög miklu máli fyrir fjölmiðla að þurfa ekki að ganga bónarveg eftir stuðningi til ráðherra á hverju einasta ári. Fjölmiðlar eru auðvitað að reyna að reka sín fyrirtæki með fjölda starfsmanna og það skiptir líka miklu máli upp á fjölmiðla á Íslandi að hægt sé að halda í reynslumikið fólk. Þegar reynslumikið fólk býr við það ofboðslega óöryggi sem nú ríkir á fjölmiðlamarkaði verður ákveðinn svona heilaþvottur út úr stéttinni og við höfum horft á það gerast mjög mikið. Yngsta og reynsluminnsta fjölmiðlafólkið verður eftir vegna þess að það getur kannski meira leyft sér það en hættan er að þetta veiki bara jafnt og þétt fjölmiðlana.

Mig langar líka að koma aðeins inn á landsbyggðarvinkilinn af því að hæstv. ráðherra nefndi þessa kröfu um áskriftir og það er verið að gera það líka á Norðurlöndunum. Það væri gott að vita á hvaða stigi við erum að tala um þessar hugmyndir, hvort við fáum þetta í haust eða hvort þetta er að koma fram á næsta ári, þar næsta ári eða hvenær. En varðandi landsbyggðarvinkilinn þá er það líka þannig á Norðurlöndunum að það eru veittir sérstakir styrkir fyrir þá sem texta efni sitt, sérstakir styrkir fyrir þá sem talsetja og sérstakir styrkir aukalega fyrir þá sem miðla fréttum af öðrum svæðum en bara í kringum höfuðborg landsins. (Forseti hringir.) Ég held að allt þetta sé efni sem hæstv. ráðherra ætti að líta til við plan sem kemur vonandi einhvern tímann.