Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að heyra að hann vill ekki slá af getu Landhelgisgæslunnar til björgunar, eftirlits með okkar auðlindum og ekki síst okkar öryggi á stærra svæði sem fáir geta sinnt nema einmitt flugvél. Við erum auðvitað á þannig stað núna að það er stríð í Evrópu, bara í næsta nágrenni við okkur, og rétt í þessu voru að birtast fréttir um að við yrðum að fara að leyfa auknar siglingar, einmitt vegna þessa stríðs, með farartæki sem við þurfum líka að geta haft eftirlit með.

Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þess að honum er tíðrætt um starfshóp sem hann skipaði: Er einhver fulltrúi frá Landhelgisgæslunni í þessum stýrihópi? Ef svo er ekki, hvers vegna er ekki fenginn einhver fulltrúi þeirra sem best þekkja til björgunaraðgerða, sem best þekkja til þeirra verkefna sem hefur verið farið í varðandi almannaöryggi, varðandi náttúruvá og þess háttar í þeim farartækjum sem Landhelgisgæslan býr yfir? Og svo spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann að ef stjórnvöld hefðu tryggt Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til reksturs að Landhelgisgæslan hefði þá farið út í það neyðarbrauð að leigja frá sér nauðsynlega flugvél sem sinnir eftirliti með okkar auðlindum, sem sinnir eftirliti varðandi öryggi, sem sinnir öryggisþáttum, sem sinnir öryggi varðandi náttúruvá og þess háttar og sjúkraflugi, — við megum ekki gleyma því hvernig það hefur skilað sér að vélin var ekki tiltæk — að Landhelgisgæsla Íslands hefði brugðið á það neyðarráð að leigja út slíka vél ef nægt fjármagn hefði verið tryggt til reksturs þessa umfangsmikla öryggistækis okkar sem Landhelgisgæsla Íslands er? (Forseti hringir.) Þetta er ein mikilvægasta stofnun landsins.