Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir samtalið. Nemendur eru verr undirbúnir þegar þeir koma til háskólanáms nú en var áður. Það segja þeir sem starfa í háskólum og hafa áhyggjur af því. Á síðustu tíu árum gerðist það helst að tekin var ákvörðun á einu augabragði, frekar illa ígrunduð, um að stytta framhaldsskólann. Á tímum þar sem líf okkar lengist, meðalaldur okkar er að hækka þá einhverra hluta vegna tók kollegi hæstv. ráðherra þá ákvörðun að það þyrfti að drífa unga fólkið út í atvinnulífið því að það myndi efla þeirra dyggðir að vinna meira, vinna lengur og mennta sig skemur — einhverra hluta vegna. Ég er ósammála þessari nálgun. Ég held að það skipti mjög miklu máli að nemendur í framhaldsskólum fái líka þann félagsþroska sem þar er.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að hún kom inn á það að það eru sífellt færri sem taka námslán í dag. Það er staðreynd. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að námslánin eru gríðarlega mikilvægt jöfnunartæki. Það voru jafnaðarmenn sem settu á námslánin á sínum tíma til að tryggja að börn og ungmenni frá tekjuminni heimilum og efnaminni heimilum ættu þess líka kost að mennta sig eins og þau ungmenni sem komu af efnameiri heimilum. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Það að grunnframfærsla í námslánunum sé eins og hún er veldur því að færri fara inn í þessa hít og veldur því að færri fara og sækja sér námslán, fleiri vinna með námi og þetta vindur upp á sig. Það getur verið að þetta sé líka hluti af því að (Forseti hringir.) karlkyns nemendur detta frekar út úr menntakerfinu, vegna þeirrar gömlu staðalmyndar að þeir séu mögulega frekar (Forseti hringir.) þeir sem þurfa að framfleyta fjölskyldu, af því að þetta er jú á þeim árum sem fólk er að eignast börn.