Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu litla frumvarpi og tek undir margt sem þar kemur fram og eiginlega flestallt. Ég staldra örlítið við þá löngu varnarræðu sem brast á með í lokin á ræðu ráðherrans af því að hér er auðvitað ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða á núgildandi lögum. Við skuldbundum okkur á sínum tíma til að setja inn einhvers konar ákvæði við bókun 35 af því að í samningaviðræðunum á sínum tíma vorum við ekki tilbúin til að setja ákvæðið inn í heild sinni, bókun 35 eins og hún orðaðist. Síðan þá hafa einhverjir lagatæknar, eins og við erum svo sem báðar, verið að búa til ágreining um skuldbindingar Íslands. Hér er bara verið að árétta gildandi rétt með þessu ákvæði sem við erum hér að fjalla um og í þessu frumvarpi. Það má segja að 1. gr. sé nánast orðrétt samhljóða greininni eins og hún stendur í norsku lögunum. Þeir gerðu þetta einhvern veginn meira afdráttarlaust á sínum tíma, að færa inn þetta ákvæði. Þar orðast það, eins og segir í greinargerðinni, að ákvæði laga sem miða að því að uppfylla skuldbindingar Noregs í samningnum, þ.e. EES-samningnum, skuli ganga framar öðrum ákvæðum sem sett er um sama efni ef upp kemur misræmi. Sama gildir um reglugerðir og seinna fram komin lög. Þannig að ég spyr: Var þessi langa varnarræða gerð til heimabrúks í Sjálfstæðisflokknum? Er þetta gert til þess að reyna að lægja öldur þar innan flokks? Munum við sjá fram á á næstum vikum og mánuðum að hér hefjist aftur innanflokkskapphlaup þar sem (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn er í keppni um að kljúfa sig innan frá og láta það eiga sér stað hér á Alþingi Íslendinga?