Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og samtalið. Ég er innilega sammála því að það á ekki að eyrnamerkja þjónustuna greiningu. Ég minni einmitt á frumkvæði Reykjavíkur þegar kemur að þessu, að þjónustan sé veitt óháð greiningu. Það var gert með þessu stóra verkefni sem farið var í með Barnvæn sveitarfélög, að byrja á því að nálgast börnin strax og vandamálið kemur upp en ekki að bíða eftir einhverri greiningu. Ég held samt að við þurfum einhvers staðar að skoða hvað er að gerast inni í skólunum því þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra um að það sé búið að stórefla, stórauka og setja inn í þetta kerfi þá aukast biðlistarnir umtalsvert. Þá veltir maður fyrir sér: Hvað er að gerast í grunnskólunum sem hæstv. ráðherra ber líka ábyrgð á? Getur verið að við séum bara með eitthvert kerfi sem er að valda svona mikilli vanlíðan? (Forseti hringir.) Hvað er það sem býr til þennan snjóbolta sem virðist hlaða utan á sig? Ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra um það, alls ekki. Ég er bara að segja: Þurfum við kannski að fara inn í grunnskólana og skoða hvað er raunverulega að gerast þar?