Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

986. mál
[16:41]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er það ríkulega skylt sem hjúkrunarfræðingi að koma fram í umræðum um frumvarp sem snýr að breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem hluti máls snýr að refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn á alvarlegum atvikum. Í ákvæðinu er mælt fyrir um nýja grein í lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er fjallar um refsiábyrgð lögaðila óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann rekstraraðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Ljóst er að hér er kominn fram vinkill í lögunum þar sem virðist að ábyrgð sé hægt að deila, þegar kemur að refsilegu athæfi eða mistökum í kerfinu, með starfsmanninum og rekstraraðila eða þeim sem skipuleggur og veitir þjónustuna. Þetta er framfaraskref í rétta átt en hér mætti kveða fastar á um skilgreiningu refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks annars vegar og vinnuveitandans hins vegar. Það er því miður staðreynd að mistök, meira að segja alvarleg mistök, hafa átt sér stað í íslensku heilbrigðiskerfi líkt og heilbrigðisráðherra fór yfir hér áðan. Við höfum séð fréttir og mál því tengd þar sem heilbrigðisstarfsmenn hafa verið sóttir til saka fyrir mistök sem hafa haft alvarlegar afleiðingar og í versta falli leitt til dauðsfalla.

Það er gífurlega mikilvægt og flókið starf að vera heilbrigðisstarfsmaður. Þess utan eru vinnuaðstæður stéttarinnar í þrískiptu vaktakerfi sem hefur áhrif á svefn og hvíld viðkomandi. Engin krafa er gerð um lágmarkshvíld þessa starfsfólks líkt og gert er hjá fólki sem vinnur í flugi, bæði flugmönnum og flugþjónum, og hjá starfsfólki sem vinnur á þungaflutningabílum. Þessar starfsstéttir eru neyddar í reglubundna hvíld hvort sem þær treysta sér til áframhaldandi vinnu eða ekki.

Virðulegi forseti. Aftur vil ég fagna því að þetta frumvarp sé þó komið fram með þeim skrefum sem eru stigin þótt ég sé sammála Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga um að það hefði mátt ganga lengra í að takmarka refsiábyrgð heilbrigðisstarfsmanna. Þær aðstæður sem þetta starfsfólk er í — gífurlegt álag, mannekla, þar sem birtingarmyndin er slík að það vantar fjölda starfsfólks á vaktir auk þreytu vegna mikillar vaktabyrði — eru raunveruleiki fyrir þennan hóp alla daga. Mistök í þessu starfi má að miklu leyti rekja til aðstæðna í starfsumhverfinu sem leiða til mistaka. Að því sögðu: Ef vanræksla eða glæpsamleg hegðun á sér stað eiga hegningarlög við og að sjálfsögðu heldur það sér. Það er ekki verið að flækja þessu tvennu saman. Hér er átt við að draga viðkomandi starfsmann til ábyrgðar og/eða saka fyrir dómstólum þegar um er að ræða mistök í starfi og afleiðingar þess.

Í frumvarpinu segir í 1. gr. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, með leyfi forseta:

„Stofnunum og rekstraraðilum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að skipuleggja starfsemi sína þannig að heilbrigðisstarfsmenn geti staðið við sínar lögbundnu skyldur.“

Þessi klausa, virðulegi forseti, er falleg og praktísk, en í aðstæðum heilbrigðisstarfsfólks í dag ómöguleg. Að mínu mati, þegar við höfum ekki náð utan um mönnunarvanda kerfisins, ætti að ganga lengra í að draga úr refsiábyrgð starfsmanna þegar mistök má rekja til aðstæðna í starfsumhverfinu líkt og þegar um álag og manneklu er að ræða. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra og velferðarnefnd Alþingis til að rýna frumvarpið sérstaklega með það í huga að gera lögin skýrari og ganga lengra því að í dag liggur ábyrgðin fyrst og fremst á starfsfólki sem er að reyna sitt besta alla daga við erfiðar aðstæður. Þetta liggur fyrir þrátt fyrir að orsakirnar, eins og áður hefur komið fram, megi að mestu leyti rekja til kerfislegra þátta, þ.e. ytra umhverfis starfsfólks. Ef þetta verður staðreyndin og staðan sem við stöndum frammi fyrir má leiða að því líkur að heilbrigðisstarfsfólk verði tregt til að tilkynna atvik í kerfinu. Við þurfum að hugsa betur um heilbrigðisstarfsfólkið okkar.