153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar okkur mistekst ætlunarverk okkar þurfum við að setjast niður og finna nýtt leikskipulag, hvort sem er í einkalífi, við leik og störf eða við rekstur samfélags. Við þurfum saman að finna nýtt leikskipulag því okkur hefur mistekist að byggja hér upp velferðarsamfélag sem heldur utan um alla íbúa landsins. Fréttir af dauðsföllum vegna lyfjaeitrana og sjálfsvíga eru daglegar og eftir standa fjölskyldur og vinir lömuð af sorg. Því áfalli sem samfélagið verður fyrir við hvert andlát má líkja við blæðandi sár. Það þýðir ekki að smella litlum plástri á sárið og vona að það dugi til heldur þarf að skoða hvað veldur þessu blæðandi sári. Gerum við það með aukinni einstaklingshyggju þar sem hver hugsar um sig og sitt? Gerum við það með aukinni hörku, með refsingum og vopnaburði og með orðræðu um „þau“ og „okkur“? Eða munum við búa yfir því hugrekki að ráðast að rótum vandans og hefja alvörusjálfsskoðun á samfélagsgerðinni okkar?

Að mínu áliti þurfum við að auka samkennd og minnka einstaklingshyggju. Samkennd er nefnilega hægt að þjálfa frá fyrsta andardrætti barnsins með því að hægja á kapphlaupinu, með því að fjölga samverustundum fjölskyldunnar, taka betur utan um þá hópa sem eiga á hættu að útskúfast og einangrast og sýna þeim mildi en ekki fordæmingu og útskúfun sem höllum fæti standa.

Herra forseti. Við þurfum að græða hið blæðandi sár með þjóðarátaki sem stjórnvöld og við, kjörnir fulltrúar, þurfum að leiða saman með mildi og kærleika að leiðarljósi en ekki með því að auka hér hörku, auka aðskilnaðarstefnu með orðum og gjörðum. (Forseti hringir.) Viðbragð okkar þarf að snúa að rót samfélagsvandans (Forseti hringir.) en ekki með plástri á blæðandi sár. Við getum gert þetta saman og við eigum að gera þetta saman til að búa til umvefjandi samfélag.