Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

982. mál
[18:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það þarf vissulega og ég held að það sé algjört lykilatriði að þú getir talað við þann heilbrigðisstarfsmann sem þú mætir á íslensku. Mér finnst það skipta mjög miklu máli af því að það tala ekki allir ensku. Hins vegar í ákveðnum geirum mætti sjá fyrir sér að þú sért með mjög sérhæfðan lækni sem fær til sín sérstaka viðskiptavini, tannlækni t.d., og þá getur þú beint viðskiptum þínum sérstaklega á þessa heilsugæslustöð af því að þú veist að þar er einhver pólskumælandi eða einhver sem talar arabísku eða kínversku eða hvað sem er, þar er einn af fjölmörgum læknum eða fjölmörgum hjúkrunarfræðingum sem talar þetta tungumál. Þannig sé flóran líka. Ég held að það væri óheppilegt að við stillum því þannig upp að viðkomandi fær menntunina metna og er svo kannski eini heilbrigðisstarfsmaðurinn á staðnum og íbúar sem eru innfæddir, sem eru væntanlega í meiri hluta, geta ekki talað við viðkomandi. Ég held að það gangi ekki. En auðvitað er það líka þannig að fólk sem hingað kemur leggur sig fram að læra okkar tungumál og gengur langflestum mjög vel. Ég held að við þyrftum að setja smá kraft í að viðurkenna þessa menntun af því að það vantar fleira fólk til starfa, það er viðurkennt, við erum svo fá. Það þarf að setja smá kraft í að láta þetta ganga. Við þurfum lækna, við þurfum sjúkraliða, við þurfum hjúkrunarfræðinga í öllum geirum og við ættum að láta þetta ganga.