Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

dómstólar.

822. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar en undir álitið rita sú sem hér stendur og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, hv. þingmaður Pírata.

Fyrsti minni hluti tekur undir markmið og efni frumvarpsins að því leyti að nauðsynlegt sé að fjölga dómurum við Landsrétt svo vinna megi niður þann langa málahala sem myndast hefur við réttinn frá stofnun hans 1. janúar 2018. 1. minni hluti bendir þó á að ekki sé um ófyrirsjáanlegar aðstæður að ræða því allt frá upphafi hafi legið fyrir að dómurinn gæti ekki starfað sem skyldi vegna þess hvernig til dómsins var skipað. Í lok árs 2017, skömmu fyrir upphaf starfs Landsréttar, féll dómur í Hæstarétti þess efnis að þáverandi dómsmálaráðherra hefði ekki farið að lögum við skipan Landsréttar. Var það jafnframt niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Strax við upphaf starfsemi Landsréttar var á það bent að það, að hafa starfandi við réttinn þá fjóra dómara sem ráðherra hafði tekið fram fyrir aðra sem hefðu verið settir ofar í hæfisröð, kynni að leiða til réttaróvissu. Leiddi niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í mars 2019 til þess að dómararnir fjórir sinntu ekki dómstörfum og voru því dómarar aðeins 11 sem störfuðu við dóminn upp frá því. Var þá strax um mitt ár talað um ófremdarástand við Landsrétt, þar sem málahalinn var þá þegar orðinn verulegur. Síðar sama ár féllust dómararnir á að fara í launað leyfi svo hægt væri að setja dómara tímabundið en þá hafði dómstóllinn verið undirmannaður um nokkurra mánaða skeið.

Herra forseti. Sá mikli málahali sem þá skapaðist, auk þeirra tafa sem heimsfaraldur leiddi af sér fyrir Landsrétt, hefur leitt til þess að málsmeðferðartíminn er orðinn langt umfram það sem æskilegt er. Þessi langi málsmeðferðartími bitnar á þeim málsaðilum sem reka mál fyrir dómi, sem og sakborningum og brotaþolum í sakamálum. Í síðari tilvikunum hefur Landsréttur dæmt sakborninga til vægari refsingar og þannig notað þann langa málsmeðferðartíma, sem rekja má til ofangreindra orsaka, til refsilækkunar fyrir sakborninga. Ekkert tillit hefur hins vegar verið tekið til þess miska sem brotaþolar verða fyrir vegna hins langa málsmeðferðartíma. Mætti sjá fyrir sér að miskabætur þeim til handa yrðu hækkaðar og yrði sá kostnaður felldur á ríkissjóð, enda stjórnvöld ábyrg fyrir þeim langa tíma sem málsmeðferð hefur tekið. 1. minni hluti áréttar, og tekur þar með undir með meiri hlutanum, að það er grundvallarréttur aðila að fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum, þar á meðal að málsmeðferð fari fram innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1994, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta getur ráðið úrslitum þegar almenningur tekur ákvörðun um að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að komið verði að fullu til móts við það ástand sem skapast hefur við dóminn og allt verði gert til að stytta málsmeðferðartímann og vinna niður málahalann í þágu réttaröryggis almennings.1. minni hluti er hlynntur því að fjöldi dómara við Landsrétt verði 16 en telur mikilvægt að næstu tvö árin, að lágmarki, verði skipaðir dómarar við réttinn 18 talsins. Því leggur 1. minni hluti til að dómurum verði fjölgað um þrjá, en að sett verði ákvæði til bráðabirgða varðandi tvö dómaraembætti, þannig að þegar dómarar hætta við réttinn að tveimur árum liðnum frá gildistöku ákvæðisins, þá verði ekki endurskipað í tvö embætti, heldur verði endanlegur fjöldi dómara við Landsrétt 16, í stað 15 núna og í stað 18 næstu tvö árin. Er þetta gert til þess að vinna niður þennan mikla hala. Það er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt fyrir réttaröryggi landsins, það er nauðsynlegt fyrir allan almenning.

Að teknu tilliti til þess sem hér hefur komið fram leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt, þó með þeim breytingum að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

„Eftir gildistöku ákvæðis þessa skal ráðherra skipa dómara við Landsrétt þannig að fjöldi dómara verði 18. Eftir skipan dómara skv. 1. málsl. og að tveimur árum liðnum frá gildistöku ákvæðis þessa skal ekki skipa í embætti dómara við Landsrétt fyrr en fjöldi dómara verður sá sem kveðið er á um í 1. mgr. 21. gr.“

Eins og áður sagði rita undir þetta álit sú sem hér stendur og hv. þm. Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, og óska eftir að meiri hluti þings styðji þetta í þágu alls almennings.