Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Tilvitnuð orð um það sem mætti spara byggja á því að grípa strax inn, að bregðast við augljósri stöðu um að sjóðurinn eigi ekki fyrir skuldbindingum sínum og með því að ríkissjóður gangi ekki lengra en hann hefur lofað samkvæmt þeim skilmálum sem undirritaðir hafa verið, með því að fara ekki leið hv. þingmanns um að gera ekki neitt í stöðunni, að ríkið leggist bara flatt og lofi greiðslum langt umfram það sem áður hefur verið gert með þeirri ábyrgð sem undirrituð var. Þannig er hægt að koma í veg fyrir það tjón sem hv. þingmaður viðurkenndi í upphafi ræðu sinnar að hún skildi ekki.

Ég þakka fyrir tækifærið til að koma hér upp og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst dálítið dapurlegt að í þessum sal skuli ríkissjóður ekki eiga fleiri vini. Ég verð að segja alveg eins og er að það slær mig undarlega þegar þingmenn standa hér upp og tala um það að hugmyndir séu brot á stjórnarskrá. Bara hugmyndin um að gera eitthvað í málinu er brot á stjórnarskrá, sagði hv. þingmaður. Þvílíkt og annað eins. Þvílíkt og annað eins, að hér séu uppi orð um að menn ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar. Ekkert sem sagt hefur verið í þessu máli felur það í sér að ríkið ætli ekki að standa við sínar skuldbindingar, (Gripið fram í.) ekki neitt, þveröfugt. Hér er vísað í lögfræðiálit en auðvitað sleppt því að vísa í þau lögfræðiálit sem skýrsla ráðuneytis míns til þingsins byggði á. Það kemur ekkert á óvart þegar menn ákveða að taka einungis upp málstað þeirra sem hafa hagsmuni í málinu, kröfuhafanna sjálfra, og flytja hér inni í þingsal að menn hafi komist að sömu niðurstöðu og þeir sem halda á hagsmunum. Það kemur mér bara ekki neitt á óvart.

Markmið stjórnvalda með því að leggja til slit og uppgjör ÍL-sjóðs, mál sem ekki er komið fram hér á þingi, er að taka á fyrirsjáanlegu greiðsluþroti með fyrirhyggju og með skipulegum aðgerðum.

Hér er komið inn á trúverðugleika í stjórn ríkisfjármála og rætt um lánshæfismat. Ég ætla fyrst aðeins að ræða um lánshæfismatið. Mér finnst ég heyra óm gamallar umræðu um að það borgaði sig fyrir ríkissjóð að taka á sig ábyrgðir langt umfram skyldu, t.d. í Icesave-málinu. Þeir voru ófáir sem komu hingað upp og sögðu: Ef við tökum ekki á okkur þessar kröfur höfum við tapað siðferðilega og þá hefur ríkissjóður tapað trausti markaðanna með því að stíga ekki inn í eins og aðrir myndu gera í sambærilegri stöðu. (Gripið fram í.) Og hver var svo niðurstaðan í þeim leiðangri? Með því að verða ekki við þeim kröfum sem uppi voru hafnar gegn íslenska ríkinu í upphafi varð niðurstaðan allt önnur, miklu hagstæðari fyrir ríkið og ríkissjóð. Og hvernig taka markaðirnir slíku? Jú, þeir treysta þeim sem skuldar minna, þeir treysta honum betur heldur en þeim sem skuldar meira. Alveg nákvæmlega eins og í þessum málum. Ef ríkissjóður færi nú að taka á sig skuldir og skuldbindingar umfram það sem áður hefur verið lofað er það ekkert líklegt til að auka traust markaðanna. Það er einfaldlega þannig.

Varðandi stöðu kröfuhafanna er það helst að segja á þessum tímapunkti að þeir eru einfaldlega upplýstir um að okkur er full alvara um að finna lausn á fyrirliggjandi vanda. Við höfum lagt aðaláherslu á það að ná viðunandi lausn í samningum. Það hefur ekki reynst mögulegt til þessa. Með áformaskjalinu hafa kröfuhafar tök á að meta stöðu sína miðað við mögulega lagasetningu og geta enn, eins og fram kemur í áformaskjalinu, stefnt að því að ná betri útkomu úr samningum. Sú staða er óbreytt að lagafrumvarp verður aðeins lagt fyrir Alþingi ef samningaviðræður eða tilraunir til að koma á samningum verða árangurslausar.

Að sjálfsögðu hafði farið fram greining, lögfræðigreiningin sem ég hef áður gert opinbera (Forseti hringir.) er dæmi um það.

(Forseti (BÁ): Nú ber ekki saman tímasetningum í borði forseta og í ræðustól.)

Ég var með eina og mínútu og 20 sekúndur hérna á klukkunni.

(Forseti (BÁ): Það er trúlega rétt.)

En þannig er mál með vexti að við lögðum að sjálfsögðu mat á það og komumst að þeirri niðurstöðu að það gæti aldrei skaðað lánstraust ríkissjóðs að fara fram á það að skilmálum skuldabréfanna yrði fylgt í einu og öllu. Hér er um það að ræða að ríkissjóður vill koma á með skipulegum hætti uppgjöri á skuldbindingunni og greiða að fullu þann höfuðstól sem ábyrgðin stendur að baki. Í þessu efni er líka sjálfsagt að geta þess að við höfðum m.a. samband og ég átti fund með Lee Buchheit á sínum tíma úti í Washington þar sem við ræddum þetta mál í breiðu samhengi. Ég held að það sé erfitt að finna meiri sérfræðing í skuldabréfamálum ríkissjóða en þann ágæta lögmann og lögfræðing og byggja hugmyndir okkar m.a. á slíkum ráðleggingum.

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða mál sem ekki er fram komið á Alþingi, ekki í fyrsta skipti. Það liggja sömuleiðis fyrir skrifleg svör, (Forseti hringir.) sem ég vísa í, til þingsins. Ég fagna hverju tækifæri til að ræða þetta mál en ég kalla eftir því að menn haldi aðeins aftur af sér (Forseti hringir.) með stórkarlalegar yfirlýsingar (Gripið fram í: Já.) um hrun á lánstrausti ríkissjóðs (Forseti hringir.) þegar ekkert á mörkuðunum sem eru lifandi á hverjum degi gefur vísbendingar um að lánstraust ríkissjóðs hafi breyst á nokkurn hátt nema þá ef eitthvað er á hinn veginn, því að það hefur verið þannig.