Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

dómstólar.

822. mál
[17:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir þessari breytingartillögu og óska eftir því að meiri hlutinn hugsi sig aðeins um.

Það er kominn upp málahali í Landsrétti út af svolitlu — Landsréttarmáli fyrst og fremst, líka auðvitað heimsfaraldri — en aðallega Landsréttarmáli sem olli því að dómstóllinn var verulega undirmannaður um langa hríð vegna þess hvernig hann var skipaður.

Við þurfum að tryggja réttaröryggi á Íslandi. Við þurfum að tryggja réttláta málsmeðferð. Það er grundvallarréttur borgaranna að geta leitað til dómstóla og að málsmeðferð sé með tilhlýðilegum hraða.

Hér er verið að leggja til að við höfum sólarlagsákvæði þannig að dómurum verði fjölgað um tvo að auki til tveggja ára til að ná niður þessum mikla hala. Það er alveg óboðlegt hvernig þetta er. Þetta veldur almenningi á Íslandi verulegu tjóni.

Ég segi já.