blóðmerahald.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns þá undirritaði ég reglugerð í ágúst á síðasta ári sem snerist um að tryggja velferð og heilbrigði þeirra hryssa sem nýttar eru til blóðtöku og þá var þessi óljósa réttarstaða starfseminnar færð til betri vegar. Það er hins vegar ljóst núna með athugasemdum ESA að ESA telur að blóðmerar eigi að falla undir tilskipun um vísindatilraunir en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hafa íslensk stjórnvöld talið að þarna væri fyrst og fremst um að ræða afurðanýtingu og félli þess vegna ekki undir umrædda tilskipun. En það breytir því ekki að undir er grundvallaratriði og grundvallarsjónarmið sem lýtur að velferð dýra sem skiptir höfuðmáli í þessu efni og hefur verið mín nálgun í þessum málaflokki, óháð þessum ágreiningi við ESA sem verður bara leiddur til lykta eins og títt er um slíkan ágreining. Þess vegna setti ég á fót starfshóp sem fór yfir starfsemina, fór yfir regluverkið og fór yfir eftirlitið og í kjölfarið var sett ný reglugerð með skýrari skilyrðum en jafnframt var sett á laggirnar rannsókn til að svara spurningum sem enn er ósvarað varðandi þessa starfsemi. Þær niðurstöður liggja ekki fyrir enn sem komið er, en samkvæmt upplýsingum sem ég hef í mínu ráðuneyti þá munu þær niðurstöður liggja fyrir í nóvember. En tilgangurinn er alltaf að tryggja velferð og heilbrigði þessara dýra.