blóðmerahald.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En spurning mín var einföld: Skiptir máli hvaða merkimiði er hengdur á dýrið þegar um dýraníð er að ræða? Skiptir máli hvort það er í vísindaskyni eða hvort það er í atvinnuskyni? Og þarf ekki einmitt starfsleyfi fyrir atvinnurekstri? Hæstv. ráðherra framlengdi þetta dýraníð, í mínum huga, um þrjú ár, hvorki meira né minna. Það hefur hvergi nokkurs staðar nokkurn tíma í nefndum Alþingis verið sent inn annað eins af umsögnum og vanþóknun og var í sambandi við þetta blóðmerahald.
Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði fyrri spurningunni um hvort merkimiðinn skiptir máli um dýraníðið, hvort það er í vísindaskyni eða atvinnuskyni, og hvort hæstv. ráðherra sjái virkilega ekki blóðslóðina sem eftir hana liggur í þessari blóðtöku með blóðmerar. Nú er þessi búskapur að byrja alveg upp á nýtt. Er ástæða til þess að halda þessu áfram þegar hægt er að fá PMSG með öðrum hætti en með því að níðast á fylfullum hryssum?