Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

málefni hælisleitenda.

[15:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Vissulega flagga þessar upplýsingar rauðu gagnvart mér og öðrum í stjórnsýslunni og það er kannski m.a. þess vegna sem Útlendingastofnun hóf þá vinnu í lok síðasta árs að breyta um vinnulag þegar kemur að umsóknum um vernd frá fólki frá Venesúela og endurskoða matið á stöðunni í Venesúela og gera það með tilliti til þess sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Ég held að sú afgreiðsla sem hér hefur verið viðhöfð eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála á síðasta ári, held ég að það hafi verið, um að veita hér viðbótarvernd eða fjögurra ára vernd, sem er hvergi í öðrum löndum Evrópu með sambærilegum hætti, hafi verið sá segull sem dregur fólk hingað umfram annað. Ég er þá að vonast til þess að það verði breytingar á því og við samræmum þetta og þá held ég að Ísland verði ekki lengur með þennan segul sem dregur þetta fólk í stórum hópum sem raun ber vitni til Íslands. (Forseti hringir.) Við tökum þessi mál auðvitað mjög alvarlega og flóttamannafjöldinn frá Venesúela er til (Forseti hringir.) verulegrar umhugsunar og er hreinlega stór hluti af þessum of mikla hópi sem hingað er að koma, (Forseti hringir.) þessum fjölmenna hópi sem hingað er að koma og við ráðum illa við.