Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

frístundastyrkur.

[15:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Fjórðungur einstæðra foreldra býr við efnislegan skort, samkvæmt úttekt Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, og allt að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna tómstundastarfs barnanna sinna. Þegar ég las þetta þá rifjaðist upp fyrir mér kosningaloforð sem Framsóknarflokkurinn gaf í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ég ætla að fá að lesa hérna upp auglýsingu sem flokkurinn birti, með leyfi forseta:

„Tómstundastyrkur fyrir öll börn. Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með 60.000 kr. greiðslu til allra barna á ári óháð efnahag.“

Og þessu fylgdu núverandi þingmenn flokksins margir hverjir eftir með greinum hingað og þangað þar sem fjölskyldum var lofað — ja, einhvers staðar kom fram að fjölskylda með þrjú börn fengi jú 180.000 kr. í styrk. Er ekki bara best að kjósa vaxtarstyrk? skrifaði einn af núverandi þingmönnum flokksins. En nú eru að verða liðin tvö ár. Það er ekkert að frétta af þessum blessaða vaxtarstyrk. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára gerir ekki ráð fyrir þessum vaxtarstyrk, styrk sem myndi svo sannarlega muna um fyrir þessar fjölskyldur sem líða efnislegan skort, svo ég held ég verði bara að spyrja hæstv. barnamálaráðherra, hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins og helsta málsvara flokksins í barnamálum: Samdi Framsóknarflokkurinn bara frá sér þetta kosningaloforð, þetta mál, um leið og talið var upp úr kjörkössunum og flokkurinn settist niður með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum og fór að leggja á ráðin um það hvernig hlutirnir yrðu gerðir á þessu kjörtímabili? Og ef svo er, hvað fékk flokkurinn eiginlega í staðinn?