Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

dómstólar.

822. mál
[14:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að bregðast við slæmu ástandi í Landsrétti þar sem málahalinn er slíkur að það má efast um að réttaröryggi landsmanna sé tryggt. Við upphaf þessa árs voru óafgreidd mál 366. Það er verið að bæta við einum dómara í Landsrétt. Ég ætla að leyfa mér, í tilefni dagsins, að vísa hér í nýtt Tímarit lögfræðinga þar sem haft er eftir forseta Hæstaréttar að hann telji varanlega fjölgun landsréttardómara um einn vera til bóta en óvíst sé að það dugi til. Hann teldi raunar rétt að fjölga dómurum frekar tímabundið um þrjá því að þrír landsréttardómarar dæmdu að jafnaði í hverju máli og þannig væri hægt að vinna bug á málahalanum.

Þannig hefði verið hægt að tryggja réttaröryggi en því miður felldi meiri hlutinn þá tillögu mína við afgreiðslu í lok 2. umr. og er það miður. Þetta er enn eitt dæmið þar sem ríkisstjórnin er alltaf bara að reyna að gera (Forseti hringir.) það allra minnsta til að bregðast við ófremdarástandi. Því miður er það réttarríkið sem nú bíður skaða af.