Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

aðgerðir og barátta gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum.

496. mál
[14:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Skýrsla úttektarnefndar GREVIO vegna stöðu innleiðingar samningsins á Íslandi var birt 14. nóvember sl. Þar koma fram helstu niðurstöður úttektarnefndarinnar auk tilmæla til Íslands um hvað megi betur fara. Ísland hlýtur hrós fyrir margvíslega þætti og fram kemur að skýrslan varpi ljósi á skýran vilja og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda til að koma á kynjajafnrétti, sérstaklega hvað varðar baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og því að bæta lagalega stöðu þolenda og minnka launabil kynjanna. Enn fremur hlýtur Ísland hrós fyrir vitundarvakningu um ofbeldi gegn konum og fleiri slíkar herferðir, auk margvíslegra aðgerða stjórnvalda á hinum ýmsu sviðum. Þá kemur fram í skýrslunni að starfsfólk lögreglu sé vel þjálfað til að takast á við kynferðisbrot og heimilisofbeldi og margvíslegar lagabreytingar sýna að íslensk stjórnvöld leggja áherslu á aðgerðir sem miða að baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

Þá hlýtur Ísland einnig lof fyrir að vera leiðandi í stofnun úrræða eins og Barnahúss, Bjarkarhlíðar og Bjarmahlíðar, sem talin eru til fyrirmyndar. Þrátt fyrir fjölda jákvæðra athugasemda setti nefndin einnig fram tilmæli um það sem betur megi fara, alls 62 misviðamikil tilmæli sem snerta á margvíslegum málefnum. En til staðar er starfshópur skipaður þvert á ráðuneyti sem hefur það hlutverk að móta tímasetta landsáætlun og meta framfylgni ákvæða Istanbúl-samningsins hér á landi. Hópurinn mun taka athugasemdir GREVIO til skoðunar og móta aðgerðir og vinnu í samræmi við þær ábendingar sem fram koma í skýrslu nefndarinnar. Skýrslan verður jafnframt þýdd yfir á íslensku, hún kynnt Alþingi og öðrum hlutaðeigandi stofnunum og samtökum sem hafa snertiflöt við málefnið.

Enn fremur má nefna að horft er til athugasemda GREVIO í þeirri vinnu sem nú stendur yfir, svo sem hjá starfshópi um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi, sem segja má að flokkist undir það sem hv. þingmaður var að spyrja um. Einnig er horft til athugasemda á endurnýjaðri aðgerðaáætlun í meðferð slíkra brota.

Það sem má sérstaklega nefna og þegar hefur verið ráðist í eru breytingar á lögum um meðferð sakamála og fullnustu refsinga sem samþykktar voru í júní á síðasta ári þar sem réttarstaða brotaþola og fatlaðs fólks var styrkt svo um munar og mjög ánægjulegt hversu víðtæk samstaða tókst um það hér í þinginu að afgreiða það mál. Þá starfar dómsmálaráðuneytið nú að því í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku lögreglu ásamt því að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins og styrkja reglubundið samráð þessara aðila um þjónustu brotaþola kynferðisofbeldis. Á vefsíðunni 112.is hefur verið opnuð ofbeldisgátt þar sem hægt er að finna upplýsingar um úrræði vegna kynferðisofbeldis, þar á meðal um réttarvörslukerfið, fyrir þolendur þess.

Þá hefur 200 milljónum verið varið til verkefna sem tengjast málsmeðferð kynferðisbrota þar sem tíu stöðugildum var m.a. bætt við þann málaflokk hjá lögreglu og stöðugildi hjá ríkissaksóknara og einu hjá héraðssaksóknara, sem stytt hefur málsmeðferðartíma kynferðisbrota innan refsivörslukerfisins. Þannig hefur opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 37% á undanförnum mánuðum eftir að embættið hlaut þessa fjárveitingu. Þá má einnig nefna að nú hefur verið kynnt stofnun á nýjum starfshóp sem nær þvert á ráðuneyti, sem er þá þátttaka félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis auk viðeigandi stofnana, til að fara sérstaklega í skoðun á mörgum þeim þáttum sem koma fram í þessari skýrslu.