Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

aðgerðir og barátta gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum.

496. mál
[15:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið og hv. þingmönnum sem hafa lagt orð í belg. Mér þykir það vera ljóst að forgangsröðun hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki skilar árangri. Í eftirlitsskýrslunni kemur líka fram að íslensk stjórnvöld hafi undanfarið staðið fyrir mikilvægum aðgerðum í málaflokknum. Það er sömuleiðis gott að heyra að margvísleg vinna sé í gangi í starfshópum og við endurnýjun aðgerðaáætlana og við samþættingu á vinnu ýmissa stofnana. Það er mikilvægt að slík vinna fari fram þvert á ráðuneyti eins og hæstv. ráðherra fór yfir.

Mig langaði annars í síðari umferð að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur tilmæli til viðbótar úr skýrslunni, nefnilega varðandi aðkomu frjálsra félagasamtaka að baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum, en hæstv. ráðherra fór m.a. yfir mikilvæga og aukna fjárveitingu til stofnana ráðuneytisins. Sömuleiðis langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra út í ábendingar varðandi ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum barna, en eftirlitsnefndin gerir athugasemdir við að ekki sé tekið nægilegt tillit til ofbeldis gagnvart bæði börnum og foreldrum í þeim málum. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom einnig inn á þetta atriði.