Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

útgjöld til heilbrigðismála.

499. mál
[15:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir spurði hæstv. ráðherra: Skipta aðrar breytur máli þegar við reiknum út framlag til heilbrigðismála? Já, þær skipta máli. Það skiptir t.d. máli hversu fá við erum hérna. Þegar við erum með heildarútgjöld og horfum svo á hvað við erum að setja á hvern íbúa þá verður sú fjárhæð auðvitað mjög há. Það skiptir líka máli hversu dreift við búum á landinu. En ef við horfum á verga landsframleiðslu og horfum til OECD-ríkjanna, sem eru auðvitað öll að glíma við síhækkandi heilbrigðiskostnað, sést að Ísland er eitt norrænna ríkja fyrir neðan meðaltalið. Við skipum okkur í flokk með fátækari ríkjum OECD þegar kemur að framlagi til heilbrigðismála. Við erum ríkt samfélag. Við erum rík af auðlindum og það er skömm að því hvernig við komum fram við fárveikt fólk. Það er það. Við verðum að gera betur af því að það er ofboðslega dýrt að fjárfesta ekki í heilbrigðiskerfinu og gera það ekki með fullnægjandi hætti.