Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Frú forseti. Þegar lög um kjararáð voru felld brott og nýju fyrirkomulagi komið á árið 2019 var tilgangurinn m.a. að tryggja að kjörnir fulltrúar og æðstu embættismenn yrðu ekki leiðandi í launaþróun hér í landinu, að launaþróunin okkar yrði svipuð og hjá öðrum. Nú þegar samið hefur verið um þak á krónutöluhækkanir, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum, stefnir í að við hér inni og ráðherrar fáum miklu meiri hækkun en hinn almenni launamaður. Þarna er kerfið ekki að upfylla yfirlýst markmið heldur er það að rífa ráðherra og æðstu stjórnendur upp í launum langt umfram það sem gengur og gerist á vinnumarkaði.
Hæstv. ráðherra hefur haldið ófáar ræðurnar um ábyrgð vinnumarkaðarins á verðstöðugleika og mikilvægi þess að gæta hófs í launasetningu og við heyrðum þetta bara hér rétt í þessu, kunnuglegan söng. En hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera þegar verðbólgan er yfir 9%, þegar vextir eru þeir hæstu í 13 ár og kjaraviðræður, mjög strembnar kjaraviðræður, fram undan? Ætlar hæstv. ráðherra og ætlar stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi að láta það viðgangast að kjörnir fulltrúar og æðstu stjórnendur fái miklu ríflegri launahækkun heldur en kennarinn, heldur en sjúkraliðinn, heldur en iðnaðarmaðurinn? Eða kemur kannski til greina, virðulegi forseti, að setjast niður og að við reynum að ná saman þvert á flokka um að setja sams konar þak á krónutöluhækkunina hjá okkur og samið var um á vinnumarkaði?