Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegi forseti. Þetta er nú farin að vera ákveðin klassík hér á Alþingi að við ræðum um okkar eigin kjör og ég held að það hafi varla liðið 18 mánuðir milli tímabila þar sem við höfum tekið málið til umræðu. Fyrir nokkrum árum síðan tókst okkur þó að komast að niðurstöðu um að gera enn eina breytinguna og færa þessi mál í nýjan lagabúning þar sem já, við ákváðum að æðstu embættismenn ríkisins yrðu ekki leiðandi.
Hv. þingmaður segir: Af hverju gerum við ekki eins og samið var á almennum markaði? Er hv. þingmaður þá að vísa í þessar 68.000 kr. sem hafa verið í umræðunni? Er hann að tala um það sem BHM samdi um sem voru 79.000 kr.? Er hann að tala um náttúrufræðingana sem sömdu um 73.000 kr. eða er hann að tala um verkfræðinga sem sömdu ekki um neitt þak, bara prósentur? Það er nefnilega ekki þannig að það hafi verið samið um einhvern einn stóran samning þar sem allt var eins, það er hægt að grípa eitthvað af þessum dæmum og segja: Þetta er það sem við skulum miða við. Eða við gætum bara snúið þessu dæmi öllu á hvolf og sagt: Engar hækkanir fyrir æðstu embættismenn ríkisins, enda semji markaðurinn sjálfur um það sem hann telur vera of mikið fyrir æðstu embættismenn ríkisins. (Forseti hringir.) Ef markaðurinn nær niðurstöðu um að taka þá hækkun, sem þykir vera of mikil fyrir þingmenn, (Forseti hringir.) ráðherra og aðra æðstu embættismenn, um 6%, þá held ég að væri ágætt (Forseti hringir.) að við myndum ákváðu 0% hækkun á alla æðstu embættismenn, enda sé þá líka gerður nokkurra ára samningur um þessi 6% sem eru allt of mikil (Forseti hringir.) að mati margra.
(Forseti (JSkúl): Forseti minni hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutíma sem er ein mínúta.)