Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla aldrei að útiloka það í einhverri stuttri ræðu hér í þinginu að eitthvað komi til greina. Það er alls ekki ætlun mín. Ég hef hins vegar sagt að það eru ákveðin atriði sem ber að varast við það að grípa inn í markaðinn og banna ákveðna hluti. Það getur beinlínis verkað í öfuga átt og t.d. of þröng skilyrði fyrir þá sem eiga húsnæði sem eru tilbúnir til þess að leigja geta valdið því á endanum að þeir selja einfaldlega húsnæðið og taka af leigumarkaði. En hvaða vanda er hv. þingmaður annars að tala um nákvæmlega, af því að mér finnst gott að taka þessa umræðu á grundvelli þess að vera með rauntölurnar? Hverjar eru rauntölurnar? Nú hafa laun hækkað um 18,8% síðustu 24 mánuði, 18,8% á 24 mánuðum. Á sama tíma hefur greidd húsaleiga hækkað um 12,5% — 12,5%. Laun hafa hækkað langt umfram leiguverð. Eða eigum við að skoða hvernig leiguverð hefur þróast í samhengi við húsnæðisverð? Húsnæðisverð hefur hækkað frá 2015 um 33% en leiga hefur hækkað (Forseti hringir.) um 15%. Ef það á að koma með aðgerðir sem eiga að bregðast við ástandi þá þurfum við að byrja á því að vera sammála um hvað það er sem er að. (JPJ: Stígðu út úr excel-skjalinu og talaðu við fólk.)