Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér ekki stödd í fyrirspurnatíma ráðherra, við erum að ræða um stöðu efnahagsmála. Ég vék að því í mínu máli, í minni skýrslu, að það er alvarlegt fyrir þá sem hafa tekið óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hversu mikið greiðslubyrðin hefur vaxið. Nú ætla ég ekki að verða við beiðni um að fara að veita hér einhverja almenna fjármálaráðgjöf og senda með því einhver skilaboð til þess hóps sem hv. þingmaður hefur gerst talsmaður fyrir. Það liggur þó hins vegar alveg í augum uppi að fólk hefur ýmis úrræði. Bæði bjóða skilmálar í lánaskjölum upp á að gera skilmálabreytingar, það er hægt að slá niður greiðslubyrði með því að fara yfir í verðtryggð lán, það eru ýmis úrræði í boði sem verður bara að meta í hverju tilviki fyrir sig. En skilaboðin sem við ætlum almennt að senda hér út eru þessi: Við getum náð tökum á verðbólgunni. Við getum þannig stutt við lækkun vaxta og breytingar á þeirri greiðslubyrði sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur áhyggjur af og mörg heimili. Þetta er hægt, þetta er vel vinnandi vegur en til þess þarf ákveðna samstöðu.