Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur varið kaupmátt og þar með afkomu heimilanna sem hv. þingmaður er hér að gerast talsmaður fyrir. Það er orðinn einhver frasi í þinginu að segja: Meðaltöl segja ekki neitt. Gott og vel, notum ekki meðaltöl, skoðum bara hverja einustu tekjutíund vegna þess að þær eru að endurspegla hópa í samfélaginu eftir því hvar þeir eru staddir í tekjustiganum. Þá sjáum við mjög skýrt að fyrsta tekjutíundin, hún fékk mestan kaupmáttarvöxt í fyrra, síðan kom önnur tekjutíundin, hún kom þar á eftir, þriðja tekjutíundin fékk örlítið minni kaupmáttarvöxt, alveg upp í níundu tekjutíund. Þetta þýðir að heimilin höfðu meira á milli handanna, þrátt fyrir vaxtahækkanir, þrátt fyrir verðbólguna, vegna skattalækkana undanfarinna ára og launahækkana. Það var ein tekjutíund sem tapaði kaupmætti í fyrra og það var efsta tekjutíundin. Ég er ekki að fara með einhver meðaltöl hér, ég er að tala um rauntölurnar sem koma upp úr skattframtölum sem heimilin skila til Skattsins. Og ef menn þola ekki að hlusta á þá umræðu (Forseti hringir.) þá verða þeir bara að eiga það við sjálfa sig.