Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegur forseti. Ég vil bara mótmæla því að ríkisstjórnin hafi varið verst stöddu heimilin. Það bara er ekki þannig og raunveruleikinn blasir við. Annað: Er fjármálaráðherra virkilega að mæla með því að fólk fari yfir í verðtryggð lán? Vegna þess að það er einhver versta gildra sem hægt er að koma fólki í. Fólk sem fer yfir í verðtryggð lán mun súpa seyðið af því, ekki akkúrat núna en, ég veit ekki, eftir fjögur ár, fimm ár mun það koma harkalega niður á því. Ég velti því stundum fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra skilji eðli verðtryggðra lána. Ég virkilega efast um það vegna þess að ef hann gerði það myndi hann ekki mæla með þeim. Hitt er að hann skilji það og vilji samt beina fólki þangað. Það er bara skelfilegt.
Annað sem mig langar til að koma að, af því að það hefur líka verið rætt um verkalýðshreyfinguna: Ríkisfjármálin eru ekki á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar. Ábyrgð hennar er að sjá til þess að fólk geti lifað af laununum sínum (Forseti hringir.) og geti staðið undir þessum vaxtahækkunum og hækkandi húsnæðiskostnaði sem á því hefur dunið. Það er ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar, ekkert annað.