Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að stéttarfélögin, talsmenn launþega, þeir eiga að leggja sitt af mörkum til að fólk geti lifað af laununum sínum. Þá þarf að taka allt með í reikninginn; áhrifin af nafnverðshækkunum launa á verðlag í landinu. Það var nú einu sinni sagt að fyrsta lögmál hagfræðinnar væri lögmálið um skort og að fyrsta lögmál stjórnmálanna væri að hunsa þetta fyrsta lögmál hagfræðinnar og gefa bara skít í það og segja: Við ætlum bara að fá það sem okkur finnst vera réttlátt. En það er því miður þannig að lögmálið um skort á við á Íslandi eins og annars staðar. Þegar menn reyna að taka út meira en innstæða er fyrir, raunveruleg innstæða, með framleiðnivexti t.d. eins og ég hef hér verið að rekja, þá fá menn það að jafnaði aftur í bakið. Það hefur í gegnum söguna gjarnan birst okkur þannig (Forseti hringir.) á íslenskum vinnumarkaði að launþegar fá ekki kaupmátt í samræmi við nafnlaunahækkanir.