Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Forseti. Fjármálaráðherra kennir kjarabaráttu launþega um vandann en gögn sýna að hlutur fyrirtækja og fjármagnseigenda hefur vaxið langt umfram hlut launþega. Launþegar fá minni hluta af kökunni, kakan stækkar og fyrirtæki og fjármagnseigendur skammta sér stærri og stærri sneið, eins og klassískt er, og segja síðan: Það er ekkert svigrúm fyrir ykkur hin. Þetta sýna bara gögnin okkur, hvernig munurinn á milli þeirra sem eru launþegar og þeirra sem eru fjármagnseigendur hefur verið að þróast síðan 2018. Ég spyr hæstv. ráðherra af hverju hann kennir launþegum um vandann þegar gögnin segja annað.
Annað sem ráðherra sagði hérna áðan var að hann tók dæmi um greidda húsaleigu, hún hefði bara hækkað um 12,5% á undanförnum 24 mánuðum. Ef maður skoðar undanfarna 12 mánuði er greidd húsaleiga búin að hækka um 8,6%, en greidd húsaleiga er umreikningur á því sem húsnæðiseigendur kosta til húsnæðis, viðhalda því o.s.frv. (Forseti hringir.) Reiknuð húsaleiga hins vegar er annað mál. Hún hefur hækkað um 14,5% á einu ári. Það er áhugavert að ráðherra geri rugling á reiknaðri og greiddri húsaleigu.