Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[17:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýrsluna. Hann kom inn á það nokkrum sinnum, bæði í ræðu sinni og andsvari, að ef reynt væri að taka meira út en innstæða er fyrir á grundvelli framleiðniaukningar þá fengju menn það í bakið í formi verðbólgu. Þetta er umorðað en efnislega held ég að hæstv. ráðherra hafi verið að halda þessu fram og ég er sammála þessu. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það harmónerar við þá afstöðu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra sem reglulega hefur komið fram, sem ég hef átt erfitt með að ná utan um, þess efnis að kaupmáttaraukning hafi verið umtalsverð í gegnum Covid-tímabilið þegar atvinnufyrirtæki voru sett í hægagang í tvö ár. Ég hef aldrei skilið almennilega hvernig sú kaupmáttaraukning átti sér stað og hvort hún var raunveruleg. Er ekki staðan sú að hluti af verðbólguvandamálinu núna er að við vorum að taka út kaupmáttaraukningu á þessu tímabili í krít, (Forseti hringir.) við erum að súpa seyðið af því núna að hafa kreist meira út í gegnum Covid-tímabilið heldur en innstæða var fyrir? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu sína til þessa.