Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegi forseti. Ég hef nú litið þannig á að framlagningu málsins hafi verið frestað um sinn til þess að eiga frekara samráð við aðila vinnumarkaðarins og ég trúi ekki öðru en að ráðherrann sem fór með málið bæði fyrir ríkisstjórn og þingflokka hafi trú á sjálfu málinu þó að hann vilji gefa því einhvern frekari undirbúningstíma áður en það kemur aftur fram. Og til að halda aðeins áfram á þessum sömu nótum þá tel ég að þarna sé einn stór veikleiki í íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Hann braust út með þeim átökum sem áttu sér stað á íslenskum vinnumarkaði í vor. Það er engin hemja að við höfum engin tól eða tæki fyrir ríkissáttasemjara til að grípa inn í og leiða til lykta þegar menn ná ekki saman og sitjum þannig uppi með tíðari verkföll en ella væri. Við erum með allt of sundraðan vinnumarkað sömuleiðis og því miður þá hefur þessi síðasti áratugur dálítið farið forgörðum til þess að styrkja íslenska vinnumarkaðsmódelið þannig að við getum öll saman (Forseti hringir.) stuðlað betur með okkar ákvörðunum að viðvarandi stöðugleika í landinu.