Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegur forseti. Þessi umræða hér ætti fyrst og fremst að snúast um það að heimili og meðalstór eða minni fyrirtæki standa ekki undir vaxtahækkunum Seðlabankans. Allt annað, hvort sem það er orsök verðbólgunnar, gjaldmiðillinn, eiginfjárstaða heimilanna á pappír eða skýrslur um hvað allir hafi það að meðaltali svakalega gott eru atriði sem eiga ekkert erindi inn í þessa umræðu. Til einföldunar mun ég ræða um heimili sem eru kjarni og undirstaða þjóðfélagsins, því að sömu sjónarmið eiga almennt við um minni og meðalstór fyrirtæki.
Nú ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði. Þótt flest heimili muni standa undir verðbólgunni eru fjölmörg þeirra berskjölduð gagnvart gríðarlegum vaxtahækkunum sem á þeim hafa dunið og enn sér ekki fyrir endann á. Hafi heimilin varið 100.000 kr. á mánuði í mat, bensín og aðrar nauðsynjar veldur 10% verðbólga því að sú upphæð fer upp í 110.000 kr., en 550.000 hafi þau varið 500.000 kr. í þessa liði. Flest heimili eru sennilega einhvers staðar þarna á milli, þannig að verðbólgan hefur valdið þeim 10–50.000 kr. í aukin útgjöld á mánuði.
En til að „sinna skyldum sínum við heimili landsins“ hefur Seðlabankinn farið í aðgerðir til að „bjarga heimilunum“ frá þessum kostnaðarauka með því að auka hann margfalt. Vaxtagreiðslur af 40 millj. kr. óverðtryggðu láni hafa frá því að vaxtabrjálæðið hófst vaxið úr 100.000 kr. á mánuði í 340.000 kr. Ríkisstjórnin stendur á hliðarlínunni á meðan fimm manna peningastefnunefnd, sem enginn hefur kosið, hefur meiri áhrif á hag heimilanna en ráðherrar, alþingismenn, sveitarstjórnarfólk og verkalýðsleiðtogar, sem sagt allir kjörnir fulltrúar landsins. Hvorki peningastefnunefnd né seðlabankastjóri hafa útskýrt fyrir heimilunum hvernig það er hagur þeirra að takast á við 240.000 kr. vaxtahækkanir ofan á 10–50.000 kr. hækkanir á vöru og þjónustu sem verðbólgan veldur og fyrir mér lítur þetta út eins og að bjarga einhverjum frá drukknum með því að hella yfir hann meira vatni.
Með þessum aðgerðum er Seðlabankinn, ekki verðbólgan, að koma þúsundum heimila á vonarvöl. Já, það á greinilega að sigrast á verðbólgunni, sama hvað það kostar. Og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því? Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig sem skyldi. Efnahagsstjórn ríkisins er vægast sagt í molum. Ríkisstjórnin gerir ekkert til að berjast gegn verðbólgunni og hefur neitað að ráðast í aðgerðir sem hafa gefist vel í öðrum löndum og Flokkur fólksins hefur m.a. mælt fyrir. Það hefði t.d. verið hægt að sporna gegn verðbólgunni með því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, setja á leigubremsu eða lækka álögur á neysluvörur, t.d. eldsneyti. Þar hefur ríkisstjórnin þvert á móti hreinlega bætt í verðbólgubálið með krónutöluhækkunum. Hér skiptast á aðgerðir og aðgerðaleysi, eftir því sem við á, en það eina sem við getum öll verið viss um er að hvort sem um er að ræða aðgerðir eða aðgerðaleysi er alltaf valinn sá kostur sem bitnar verst á almenningi.
En aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er samt ekki stærsti vandinn, því að það eru aðgerðir Seðlabankans sem enginn virðist hafa vald til að stöðva og enginn öryggisventill virðist vera til gagnvart svona brjálæði. Staðreyndin er sú að allar aðgerðir Seðlabankans eru verðbólguhvetjandi. Fyrirtækin í landinu skulda 5.500 milljarða. Hver einasta prósentuhækkun stýrivaxta kostar 55 milljarða og Seðlabankinn hefur næstum tólffaldað vexti á tveimur árum. Aukinn vaxtakostnaður fyrirtækja er því um 640 milljarðar, eða 53 milljarðar á mánuði. Fyrirtæki sækja þennan aukna kostnað að sjálfsögðu til neytenda með verðhækkunum sem aftur valda meiri verðbólgu.
Þetta er ekki flókið og áhyggjur seðlabankastjóra og ríkisstjórnarinnar um að fyrirtæki muni velta launahækkunum út í verðlagið eru hreinlega hlálegar í þessu ljósi, því að vaxtahækkanir Seðlabankans eru margföld sú tala sem launahækkanir kosta fyrirtækið. Því miður eru þeir sem ráða hagstjórninni í landinu meðal þeirra fáu sem sjá ekki þennan einfalda sannleika og það er skelfileg tilhugsun.
Stundum er líka gagnlegt að rýna aðeins í söguna. Sem betur fer höfum við tekið framförum á ýmsum sviðum, ekki síst þeim sem snúa að mannréttindum og réttindum einstaklinga. En það á því miður ekki alls staðar við, t.d. á það ekki við um stöðu neytenda, heimilanna í landinu, gagnvart fjármálastofnunum þegar við horfum upp á eitthvert mesta vaxtabrjálæði síðari tíma. Stýrivextir Seðlabankans eru komnir upp í 8,75%, sem þýðir að bankavextir munu að öllum líkindum fara í tveggja stafa tölu á allra næstu dögum eða vikum. Það er kaldhæðnislegt og eiginlega sorglegt að ekki hefði verið hægt að leggja þessa háu vexti á fasteignalán fyrir miðja síðustu öld en núna árið 2023, þrátt fyrir allan okkar skilning á mannréttindum og friðhelgi heimilisins, er enn og aftur verið að fórna þúsundum heimila á altari fjármálafyrirtækjanna.
Fyrir miðja síðustu öld voru vextir yfir 6% skilgreindir sem okur, líka á fasteignalán. Vextir á óverðtryggðum fasteignalánum bankanna eru núna á bilinu 9–10,64% fyrir viðbótarlán, þó að bankarnir séu ekki enn búnir að hækka vexti eftir síðustu stýrivaxtahækkun. Einu sinni voru okurvextir 6% en núna eru stýrivextir Seðlabankans 8,25% og bankavextir á fasteignalánum 9–10,64%. Látum það síast aðeins inn.
Hvað breyttist? Af hverju er engin skilgreining á okurvöxtum til í dag? Hversu langt má ganga í vaxtahækkunum áður en hægt er að tala um okurvexti? Getur ríkið eða stofnanir þess fært til vaxtamörk að geðþótta þótt þau gangi gegn hagsmunum fólksins sem þessir aðilar eiga að vernda? Ég vil kalla vaxtahækkanir undanfarinna mánaða glæp gegn fólkinu í landinu. Það getur vel verið og það er víst staðreynd að glæpurinn er framinn í skjóli laga og verður þannig aldrei skilgreindur sem slíkur, en hvað er það að koma þúsundum heimila á vonarvöl með markvissum hætti annað en glæpur; glæpur sem að mínu mati mætti líkja við landráð? Hvað er þetta annað?
Ég hef margoft gagnrýnt þá rörsýn sem birtist í að láta glórulausar vaxtahækkanir vera einu aðgerðirnar gegn verðbólgu. Flokkur fólksins hefur lagt fram margar tillögur til að hemja verðbólgu, eins og t.d. tímabundna frystingu verðtryggingar á leigu og lánum, afturköllun á lækkun bankaskatts og leigubremsu til að hamla gríðarlegum hækkunum á stjórnlausum leigumarkaði, svo nokkuð sé nefnt. Ekki hefur verið hlustað á neitt af þessu. Ríkisstjórnin er með rörsýn á einstefnu til glötunar. Afleiðingin af því er að nú á sér stað gríðarleg eignatilfærsla þar sem fjármunum heimila og fyrirtækja er beint á færibandi til bankanna í formi vaxtagreiðslna undir því yfirskini að verið sé að berjast gegn verðbólgu. Enginn vill ræða þá staðreynd að bankar og lífeyrissjóðir, sem stærstu fjármagnseigendur landsins, geta haft gríðarleg áhrif á verðbólgu á Íslandi. Það er því gjörsamlega glórulaust að hagsmunaaðilar eins og bankar og lífeyrissjóðir hagnist með beinum hætti á verðbólgu og forgangsatriði að koma í veg fyrir að verðbólga færi ekki sjálfkrafa fjármuni heimilanna í þeirra fjárhirslur. Þvert á móti þarf að skapa hvata fyrir þessa aðila til að halda verðbólgu niðri.
Í lok mars skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, grein þar sem viðruð var hugmynd um tímabundinn þrepaskiptan skyldusparnað sem ætti að koma í stað vaxtahækkana, til að hamla þenslu og minnka ráðstöfunarfé heimilanna sem er yfirlýstur tilgangur vaxtahækkana. Að sjálfsögðu þyrfti að vanda útfærslu en grundvallaratriðið er að þessi skyldusparnaður yrði þrepaskiptur og aldrei á nokkrum tímapunkti ætti að leggja þessar álögur á þá sem minnstar hafa tekjurnar því að aldrei á að skattleggja fátækt. Þvert á móti myndi svona skyldusparnaður hafa mest áhrif á þá sem mestar hafa tekjurnar. Því er einmitt öfugt farið með vaxtahækkanir, því að þær leggjast þyngst á þá sem minnst hafa og mest skulda eins og t.d. fyrstu kaupendur og ungar fjölskyldur. Þrepaskiptur skyldusparnaður myndi þýða mikið lægri álögur á heimilin, ná betri árangri en vaxtahækkanir og slá á neyslu þeirra tekjuhæstu ásamt því að hlífa þeim tekjulægstu. Síðan þegar þörf væri á innspýtingu í hagkerfið myndu þessir fjármunir skila sér aftur til heimilanna í stað þess að fæða bankana.
Þessi tillaga er mikilvægur liður í því að skapa hvata fyrir bankana til að halda verðbólgu niðri og stuðlar að ábyrgari peningamálastjórn varðandi peningamagn í umferð og fleira sem hefur áhrif á verðbólguna. Að sjálfsögðu þarf að vanda útfærsluna en í grunninn má segja að það er allt betra en núverandi fyrirkomulag og er kominn tími á nýjar lausnir. Með stórfelldum vaxtahækkunum sínum er Seðlabankinn, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, að færa bönkunum heimilin á silfurfati og fórna hagsmunum þeirra þannig að mörg þeirra munu aldrei bíða þess bætur. Jafnvel þótt óvinurinn sé verðbólga er ekki sama hvernig við tökumst á við hana og það skiptir máli að skjóta ekki niður þá sem þú segist vera að verja. Það þarf að grípa til varna fyrir heimilin án tafar og stöðva glórulausar vaxtahækkanir Seðlabankans.