Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[18:09]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með þessum umræðum sem hafa verið hér í dag. Sundruð stjórnarandstaða hefur sameinast um að draga upp mjög dökka mynd af ástandi efnahagsmála, hér sé allt að fara á verri veg. En á uppboðsmarkaði stjórnarandstöðunnar sé ég að það er frekar fátt í boði annað en aukin útgjöld, hærri skattar og auknar millifærslur. Á móti stendur ríkisstjórnin sem horfist í augu við verkefnin sem eru sum erfið, vissulega, en hún er reiðubúin að leysa þau með trú á framtíðina að leiðarljósi, bjartsýni og raunsæi. Við skulum halda því til haga að í flestu hefur okkur gengið vel á undanförnum árum. Viðspyrnan gegn erfiðum samdrætti hér á tímum heimsfaraldursins tókst betur hér á landi heldur en í flestum öðrum löndum. Heimili og fyrirtæki voru varin með aðgerðum ríkisstjórnar og Seðlabanka. Voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar eða ríkissjóðs of miklar? Það getur verið. Lækkaði Seðlabankinn vexti of mikið? Það er hugsanlegt. En allt er þetta eftiráspeki. Aðalatriðið er að vörnin tókst, eins og vel sést á þeirri staðreynd að í gegnum allt Covid hækkaði kaupmáttur launa hér á Íslandi. Á undanförnum þremur árum hefur kaupmáttur launa að meðaltali hækkað um 2% hér á landi en til samanburðar lækkaði hann um 1% í öðrum löndum Evrópu. Heimilin og fyrirtækin nýttu sér góða varnarleiki á seinasta ári. Hagvöxtur hér var 6,4%. Þetta er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan árið 2007 og búist er við að hagvöxtur verði hér meiri en áður var talið á þessu ári eða 4,8%. Horfurnar hér á landi eru því góðar, betri heldur en víðast hvar annars staðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiknar með að hagvöxtur í heiminum verði 2,8% á þessu ári, talsvert lakari heldur en á seinasta ári og hagvöxtur minnkar einkum í þróuðum ríkjum, fer úr 2,7% á seinasta ári í 1,3% á þessu ári og já, í löndum Evrópusambandsins er reiknað með 1% hagvexti á þessu ári á móti 4,8% hér á Íslandi. Þetta er einkunnagjöf fyrir efnahagsstjórn ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við ágætlega að þessu leyti og mun betur en flest ríki Evrópu.

En hvað með garminn hann ríkissjóð, sem var rekinn auðvitað, vissulega meðvitað, með gríðarlegum halla hér í varnaraðgerðum gegn farsóttinni? Á síðasta ári er áætlað að hallinn hafi verið 3,5% af landsframleiðslu sem er ríflega 4% minna en árið á undan. Batinn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði meðal annarra þróaðra ríkja. Árangur okkar var meiri og betri en annarra þróaðra ríkja.

Stærsta og erfiðasta verkefni á komandi mánuðum er vissulega verðbólga. Það mun reyna á ríkisstjórnina, það mun reyna á Seðlabankann og það mun reyna á aðila vinnumarkaðarins og það mun reyna á stjórnarandstöðuna. Það blasir við að það verður að auka aðhald í fjármálum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki hegðað okkur líkt og strúturinn og stungið hausnum í sandinn. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað að raunvirði um 39% frá árinu 2017, 346 milljarða að frátöldum vaxtagjöldum. Þetta er liðlega 10 milljarða kr. hærri fjárhæð en rennur til heilbrigðismála í heild sinni á þessu ári samkvæmt fjárlögum, þ.e. í sjúkrahús, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingu, lyf og lækningavörur.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur vissulega forgangsraðað ríkisútgjöldum í þágu velferðarmála. Þannig verða framlög til heilbrigðismála um 88 milljörðum kr. hærri að raunvirði á þessu ári en var 2017. Að raunvirði hafa framlög til málefna aldraðra hækkað um 22% og til öryrkja og fatlaðra um 31%. Og svo kemur formaður Samfylkingarinnar, hv. þingmaður, hér upp og gefur í skyn að teknir hafi verið út úr velferðarkerfinu tugir milljarða í tíð þessarar ríkisstjórnar. Öfugmælavísur er oft hægt að kveða en staðreyndirnar tala sínu máli. Og skattalækkanir — hverjir hafa notið skattalækkana mest hér nema þeir sem lakast hafa það og lægstu launin hafa? Mikið er það nú ódýrt hjá hv. formanni Samfylkingarinnar að koma hér upp og gagnrýna ríkisstjórnina eina fyrir stöðuna í húsnæðismálum. Er ekki rétt að formaður Samfylkingarinnar líti hér aðeins yfir á Tjörnina og ræði við samflokksmann sinn, Dag B. Eggertsson, sem hefur staðið þannig að verki að hér fást ekki lóðir, hagkvæmar lóðir undir hagkvæmar íbúðir, heldur fer allt í þéttingarstefnu? Sú stefna í skipulagsmálum sem Samfylkingin hefur fylgt í Reykjavík er ein aðalástæðan fyrir ástandi og þróun fasteignaverðs á undanförnum árum.

Ég hef hins vegar lengi varað við því að við séum að fara inn á hættulegar brautir þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Ég er sannfærður um það að við verðum að auka aðhaldið á sviði útgjalda ríkis og sveitarfélaga, a.m.k. á næsta ári og á árinu 2025. Aukið aðhald auðveldar Seðlabankanum verkefnið og aðilar vinnumarkaðarins verða að slást í liðið. Aðilar vinnumarkaðarins, ríkið, Seðlabankinn en ekki síður sveitarfélögin verða að leggjast öll á árarnar ef árangurinn á að nást vegna þess að það skiptir máli að ná hér árangri. Verkefnið er fyrst og síðast að verja þá miklu kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum, verja ekki síst kjör þeirra sem lægstu kjörin og lökust hafa.