Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[18:24]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þegar maður hefur hlustað hér á forsvarsmenn nokkurra stjórnarandstöðuflokka þá verður að viðurkennast að maður fyllist ákveðnu svartnætti. Hér er búið að mála mjög dökka mynd af stöðunni á Íslandi. Ég veit ekki hvort það skiptir máli að fara yfir nokkra aðra punkta til að lýsa stöðunni eins og hún er eða hvort það skipti engu máli í þessum sal en ég ætla nú að freista þess. Ég ætla samt að byrja á að segja að sú verðbólga sem geisar nú, er búin að vera of lengi og útlit er fyrir að hún verði of þrálát og þær vaxtahækkanir sem henni fylgja eru verulegt áhyggjuefni. Ég vil líka segja að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í þessum aðdraganda á síðustu mánuðum vinna sannarlega með hagstjórninni, með peningastefnunni. Það er m.a. aukið aðhald í ríkisrekstri og þeim framkvæmdum er frestað sem hægt er að fresta á skynsamlegan hátt, til að leggja sitt af mörkum, og er það mikilvægt.

Í ljósi þess að það er fleira fólk hér að hlusta þá langar mig að nefna nokkra þætti sem reyndar er kannski búið að fara yfir hér í dag. Verðhækkanir hafa til að mynda ekki farið eingöngu í laun. Þær geta runnið til launafólks, til eigenda fyrirtækja eða til ríkisins. Hér hefur verið nefnt að launafólk fékk verulega aukinn hluta af þjóðarkökunni umfram aðra á tímabilinu 2013–2018, en á síðustu árum hefur — fyrir utan að launafólk hefur haldið áfram að fá ótrúlega háan hlut, ég kem aðeins inn á það aftur á eftir — þá hefur hagnaður fyrirtækjanna aukist verulega. Við getum spurt hvort fyrirtækin séu að taka einfaldlega of mikið til sín. Það má líka spyrja hvort þau séu við þessar aðstæður að leggja nógu hart að sér til að tempra verðbólguna. Fréttir um methagnað benda til að þau geti gert betur. Það þarf að efla samkeppnis- og verðlagseftirlit. Það er alla vega mikilvægt að atvinnulífið axli sína ábyrgð eins og allir aðrir.

Ég nefndi hérna kaupmáttinn. Ef við horfum á síðustu fjögur ár þá hafa raunlaun hækkað mikið og hafa í sjálfu sér lækkað furðulítið síðasta árið á meðan, ef við horfum á lönd eins og Bandaríkin eða Bretland, miðgildi nokkurra Evrópulanda eða bara Norðurlöndin, sem okkur líkar best að bera okkur saman við, þá hafa raunlaun þar á árunum 2019, 2020 og 2021 hækkað mjög lítið. Síðasta árið hafa þau lækkað verulega, svo nemur mörgum prósentum, sem er alger andstaða þess sem við sjáum hér á Íslandi. Það staðfestist auðvitað í því sem hefur verið sagt, að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í gegnum Covid og annarra hluta þá hefur kaupmáttur lægri tekna aukist mest á þessu tímabili í öllum tekjutíundum nema þeirri efstu. Það er eitthvað allt annað en stjórnarandstaðan hefur reynt að segja okkur hérna í dag. En þannig er nú staðan. Og það er fleira. Það er búið að tala mjög lengi um að leiguverð sé mjög íþyngjandi, sem það er, en það hefur engu að síður hækkað minna en húsnæði og laun fram undir þetta. Á þessu ári held ég að óveðursský sé að draga upp sem gæti þýtt að við þyrftum að grípa til aðgerða.

Varðandi opinberu fjármálin er myndin því ekki eins dökk og dregið hefur verið fram hér. Hagvöxtur er t.d. umtalsverður. Tekjuafgangur ríkissjóðs jókst um 70 milljarða frá desember 2022 til febrúar 2023, bara þær spár og þær tölur sem við vorum með — 70 milljarða. Og enn sjáum við að verðbólgan ætlar að verða há, sem þýðir að við munum fá meiri tekjur. Þannig að horfurnar eru nokkuð góðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þó að ég ætli ekki endilega að vegsama hann sérstaklega í þessum ræðustól, hefur hvatt til aukins aðhalds en hann hefur líka bent á að fjárlög þessa árs séu í nokkuð góðu samræmi við það aðhald sem þurfi að vera og hann hefur bent á að það gæti þurft aukinn stuðning við lágtekjufólk, eins og við höfum talað um, sem og á mikilvægi húsnæðismálanna í því sambandi.

Áhyggjuefnin eru að framleiðni fer minnkandi, verðbólgan er m.a. innflutt, það er neikvæður vöruskiptajöfnuður — þjónustujöfnuðurinn jafnar hann upp á móti — og af hverju er hann neikvæður? Jú, það er vegna þess að neyslan er svo mikil, það er vegna þess að við höfum umtalsvert mikinn kaupmátt enn þá og fyrirtækin líka. Þannig að það er hægt að gera betur. Ég held að við séum öll sannfærð um að það sé hægt og við þurfum að leggjast öll á eitt með það. Það er mikilvægt að ná einhvers konar þjóðarsátt um þessi efnahagsmál. Þar verða allir að leggja sitt af mörkum. Við eigum í raun og veru að hætta að horfa í baksýnisspegilinn og reyna að kenna hvert öðru um. Það verða allir að axla sína ábyrgð. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn, aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem það eru Samtök atvinnulífsins eða verkalýðshreyfingin, við einfaldlega skuldum þjóðinni að horfa fram á við og setjast niður og finna þær lausnir sem eru til til að höggva niður verðbólgu. Við þekkjum allt of vel hvernig þetta var hér á árum áður og við þurfum ekki að fara í þann farveg aftur.

Húsnæðismálin. Það er mikilvægt að halda áfram að byggja upp almenna íbúðakerfið með áherslu á leiguíbúðir fyrir tekjulága. Þar höfum við sett skýra stefnu um þá uppbyggingu og það er mikilvægt að fylgja henni eftir þrátt fyrir vaxtastigið og verðbólguna. Við þurfum að finna leiðir og þá sátt að vera sammála um að skynsamlegt sé að fara þar í uppbyggingu, sérstaklega í haust þegar það verður væntanlega enn þá meiri samdráttur á byggingarmarkaði. Varðandi byggingarmarkaðinn þá er mikilvægt að halda honum við og fjármögnun þeirra verkefna sem þar eru. Við megum ekki lenda í sömu stöðu og eftir hrunið þegar byggingarstigið féll niður í mörg ár, fjögur, fimm ár, og svo tók það fjögur, fimm eða sex ár að byggja þennan geira upp aftur svo að hann kæmist upp á það framleiðslustig að geta framleitt nægilega mikið af húsnæði á ári. Það þarf 4.000 íbúðir á ári og jafnvel enn meira ef þessi innflutningur eða þessi fólksfjölgun á Íslandi heldur áfram eins og hún hefur verið síðastliðna 15, 16 mánuði þar sem hefur fjölgað um allt að 1.000 manns á mánuði á Íslandi. Þá munum við þurfa að byggja meira en ekki minna. Það er rammasamningur við sveitarfélögin og samningar við einstök sveitarfélög, það er búið að gera samning við Reykjavíkurborg og 16 samningar eru í farvatninu, þar sem við erum að tryggja þær lóðir sem þarf til að byggja upp, bæði hagkvæmt en líka bara allar þær íbúðir sem þarf að byggja. Það þýðir að það þarf líka að ryðja nýtt land. Það er mikilvægt að vaxtastigið hafi ekki of alvarlegar og varanlegar afleiðingar fyrir getu byggingaraðilanna til að nýta þau tækifæri sem slíkt samkomulag gefur.

Við erum líka að vinna í regluverkinu. Það er unnið að breytingum á húsaleigulögunum þar sem m.a. er unnið með tillögur um að efla og styrkja umhverfi leigjendanna og styrkja rétt þeirra sem stuðlar að langtímaleigu og forgangsrétti. Skráningarskylduna þurfum við að endurskoða. Það urðu neikvæðar breytingar gagnvart þeim upplýsingum sem við þurfum að fá hérna í þinginu. Við þurfum að skoða aftur hvort hægt sé að gera þar betur, hugsanlega gegnum Skattinn eða einfaldlega að taka málið aftur upp á Alþingi. Það er skoðun varðandi svigrúm til að hækka húsnæðisbætur. Leigubremsan er eitt af þeim verkefnum sem við erum að vinna að. Það er starfshópur að störfum, sem mun ljúka störfum fyrir 1. júlí, með frumvarp sem kæmi þá í samráðsgátt í sumar með það að markmiði að það komi hingað inn í þingið strax í haust og sem fyrst. Það er verið að leggja lokahönd á hugmyndir um að setja ákveðnar hömlur á Airbnb-útleiguna, að setja heimildir yfir til sveitarfélaga í gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið. Við höfum átt ágætissamtöl um það. Ýmislegt er gert til þess annars vegar að fjölga íbúðum á leigumarkaði en líka til þess einfaldlega að auka jafnræði í ferðaþjónustunni á þeim markaði.

Það er margt fleira sem við getum gert. Varðandi sveitarstjórnarmálin eru augljóslega tækifæri til að ná fram hagræðingu á sveitarstjórnarstiginu, til að mynda með sameiningu sveitarfélaga. Það er hægt. Það eru sennilega á bilinu 4–7 milljarðar sem liggja þar á ári fyrir sveitarfélögin, ef menn færu í þá vegferð sem hér var kynnt fyrir einhverjum tveimur, þremur árum, til að standa undir betri rekstri eða auka í þjónustuna. Það er líka mikilvægt að virkja sveitarfélögin í samtali um aðhald og hagræðingu í opinberum rekstri. Það væri hægt að flýta upptöku fjármálareglna hjá sveitarfélögum til þess að auka aðhald samhliða því að það yrði hugsanlega gert hér á þinginu. Alla vega er sjálfsagt að skoða það og ýmislegt fleira sem við getum gripið til.

Aðalatriðið er bara þetta: Verðbólgan er ógn sem við getum ekki lifað við. Vaxtastigið er það hátt að það verður íþyngjandi fyrir allt og alla. Þannig að ég ætla að leggja það til úr þessum ræðustól að við hættum að tala niður samfélagið á Íslandi heldur förum að leita leiða til þess að vinna niður verðbólguna, öll saman; hætta að horfa í baksýnisspegilinn, horfa fram á við og leggja allan þann kraft sem við höfum í það að ná niður verðbólgunni hratt og örugglega og vaxtastiginu þar með. Allt annað er býsna vel sett á Íslandi. Atvinnuleysi er milli 2 og 3%, hagvöxtur er kannski bara einfaldlega aðeins of mikill miðað við þær aðstæður sem uppi eru, allar atvinnugreinar ganga vel, útflutningur verður vaxandi. Það er allt með okkur og horfur til bjartrar framtíðar á Íslandi svo fremi að við náum tökum á því að ná niður verðbólgu. Það getum við bara gert með einum hætti: Öll saman.