Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, það er ágætt að eiga hana í þessum sal. Töluvert mismunandi þau innlegg sem hér hafa fengið að heyrast; sum hver eru mjög málefnaleg, í öðrum ræðum er talað um landráð og glæpi, sem mér finnst bera vott um að öll lýsingarorð í efsta stigi hafi verið búin.
Ég verð að segja það sem einn af forystumönnum þessarar ríkisstjórnar að auðvitað er staðan í efnahagsmálum snúin. Það neitar því ekki nokkur maður sem horfir á stöðuna. Við erum, á sama tíma og við erum með mikil umsvif og gott atvinnustig, með mikla verðbólgu og hún hefur verið þrálátari en spáð hafði verið og hún hefur verið þrálátari hér en t.d. í næstu nágrannalöndum okkar. En það er ekki hægt að koma hér upp og draga upp þá mynd að samfélagið sé í rústum, að ekkert hafi verið gert á undanförnum árum í velferðarmálum eða í efnahagsmálum eða í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Það er ekki hægt að koma hér upp og ræða um þær skattkerfisbreytingar sem gerðar voru, þar sem lækkaðir voru skattar á hina tekjulægstu og innleitt þrepaskipt skattkerfi, sem ranga aðgerð. Það var aðgerð sem miðaði að auknu réttlæti í tekjuskatti einstaklinga. Það að innleiða á ný þrepaskipt skattkerfi var aðgerð til að gera skattkerfið réttlátara og það kemur mér á óvart að heyra hv. formann Samfylkingarinnar tala um þetta eins og neikvæða aðgerð. Það kemur mér á óvart. Það kemur mér líka á óvart að heyra hér talað um að ekkert hafi verið gert í heilbrigðismálum þar sem ekki bara hefur fjölgað þeim krónum sem hafa runnið til heilbrigðismála heldur hafa líka framlög aukist á mann og var ekki vanþörf á. Það kemur mér á óvart að stórfelldar fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu hafi farið fram hjá einhverjum hv. þingmönnum því að þeim hefur svo sannarlega verið forgangsraðað sem og því verkefni að lækka kostnað fólks í heilbrigðiskerfinu, sem er risastórt velferðarmál.
Hér er ekki rætt um það hvernig markvisst hefur verið unnið að því að efla þekkingargeirann á Íslandi sem hefur gjörbreytt íslensku atvinnulífi allt frá því að fyrstu lögin um stuðning við nýsköpun voru sett 2009 og markvisst hefur verið bætt við þau með þeim afrakstri að við erum að sjá aukna verðmætasköpun og breytta samsetningu í íslensku atvinnulífi. Og það kemur mér á óvart hvernig rætt er um húsnæðismál því að staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur loksins verið unnin langtímastefna í húsnæðismálum. Á undanförnum árum erum við loksins að sjá hið opinbera beita sér á húsnæðismarkaði sem birtist í því að þriðjungur nýrra íbúða á undanförnum árum hefur verið byggður fyrir tilstuðlan aðgerða hins opinbera. Þetta kemur ekkert af himnum ofan heldur vegna stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar og eins og hæstv. innviðaráðherra fór yfir hérna áðan þá ætlum við ekkert að slá slöku við í þessu. Við ætlum að halda áfram.
Auðvitað vildi ég að það gengi hraðar. Auðvitað vildi ég að vinnan við Keldnalandið sem var afhent hér við lífskjarasamninga 2019 væri komin lengra. Það veitir ekki af því að það vantar húsnæði, okkur fjölgar og við sjáum að þarna er virkilega aðgerða þörf.
Á sama tíma og við sjáum sannarlega þessar umbætur, hvort sem er í heilbrigðismálum, atvinnulífi, menntamálum, velferðarmálum, á sama tíma og við höfum markvisst breytt skattkerfinu, á sama tíma og ráðstöfunartekjur allra tekjutíunda jukust í heimsfaraldri, ekki bara vegna aðgerða stjórnvalda heldur líka vegna einbeittrar áherslu verkalýðshreyfingarinnar á að bæta kjör hinna tekjulægri, þá höfum við séð það nú, meira að segja í þessari verðbólgu, að raunlaun hafa minnkað minna hér en annars staðar. Það myndi ég nú telja ákveðinn árangur.
Við vorum hér fyrr í dag að ræða velsældarvísa. Hver er staðan á þeim? Er staðreyndin sú að hér brenna öll hús og allt logar? Nei. Hvernig er þetta? 21 velsældarmælikvarði þróast í jákvæða átt frá árinu 2019, níu hafa vissulega staðið í stað og fjórir þróast til verri vegar. Já, þetta segir mér að það er hægt að gera betur. Það er svigrúm til umbóta en segir mér líka að við erum á réttri leið og við erum svo sannarlega að byggja hér upp það velsældarsamfélag sem við viljum sjá á Íslandi. Það höfum við gert með markvissum hætti á undanförnum árum í öllum þessum málaflokkum sem ég ræði hér.
En þýðir það þá að allt sé frábært? Nei, það sagði ég ekki. Þetta er nefnilega ekki svart/hvít heimsmynd, en við verðum samt sem áður að gæta sanngirni í þeirri umræðu sem við stöndum hér fyrir. Ég gerði það að gamni mínu að skoða nýlega úttekt sem birtist í Economist þar sem birt er staða einstakra þjóðríkja á því sem er kallað félagslegir vísar eða Social Progress Index, með leyfi forseta. Hvar er Ísland þar? Jú, í fjórða sæti. Situr þar á topp fimm með Sviss, Noregi, Danmörku og Þýskalandi.
Við skulum aðeins velta því fyrir okkur um hvað er verið að ræða hér. Við erum með vandamál, það er verðbólgan og það er vaxtastigið. Mjög margt annað gengur vel og einmitt vegna þess að það gengur vel — vegna þess að við erum ekki með samdrátt í okkar efnahagslífi, vegna þess að við erum með gott atvinnustig, vegna þess að við höfum verið að auka fjölbreytni í efnahagslífinu, vegna þess að við höfum verið að byggja upp velferðarkerfið — þá er ég ekki í nokkrum vafa að við munum lækka verðbólguna. Eins og hér hefur verið bent á í ræðum félaga minna, hæstv. ráðherra í ríkisstjórn, þá er staðan þannig að við sjáum, t.d. í umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að fjárlögin nú styðja við verðbólgumarkmið og aðgerðir Seðlabankans en það gæti þurft að grípa til aukins aðhalds á árunum 2024 og 2025. Það er sú ráðlegging sem við erum að fá, ekki bara frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur frá fjármálaráði og öðrum aðilum. Ræðum það þá. Ræðum það hvernig við ætlum að ná fram því aðhaldi. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur í fjármálaáætlun þar sem við erum að gera ráð fyrir aukinni tekjuöflun með margbreyttum hætti. Við erum t.d. að leggja til aukna tekjuöflun frá lögaðilum, sem ég hefði haldið að hugnaðist mörgum hv. þingmönnum vel eins og þeir hafa talað hér. Við erum að leggja til hækkun á veiðigjöldum, fiskeldisgjaldið, við erum að leggja til aukna skattheimtu á ferðaþjónustuna í gegnum skemmtiferðaskipin. Við erum að leggja til aukna tekjuöflun á umferð af því að við vitum það sem hér erum að samsetning ökutækja er að breytast og það þarf að breyta þeirri gjaldtöku. Þetta erum við að gera á þeirri hlið. Við erum líka að boða aukið aðhald í rekstri. Það kann að vera að einhverjum þyki það ekki nóg en það nemur eigi að síður milljörðum og þýðir að við þurfum að skera niður í stjórnsýslunni hjá stofnunum ríkisins því að við erum líka búin að ákveða það að við ætlum ekki að fórna þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í velferðarkerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Við ætlum ekki að láta þetta bitna á viðkvæmustu hópunum. Af minni hálfu kemur það ekki til greina. Það kemur ekki til greina og þess vegna höfum við lagt fyrir þingið þessa blönduðu leið tekjuöflunar og niðurskurðar til að ná fram því aðhaldi sem nauðsynlegt er til að ná niður verðbólgunni sem mun fara niður.
En það er alveg ljóst að á meðan á þessu stendur er þetta þungt. Það er enginn hér í þessum sal sem skilur það ekki því að ég veit að hv. þingmenn eru það fólk sem ég þekki sem er í mestum samskiptum við fólkið í landinu. Auðvitað horfum við á þau samskipti út frá þeirri pólitík sem við stöndum fyrir en við vitum það öll að fólk á erfiðara með að ná endum saman, að matarkarfan er dýrari, að húsnæðislánin eru að hækka og þar munar auðvitað miklu um það hver staða fólks var, hvers konar lán það tók. Þess vegna höfum við sett af stað sérstaka vinnu með aðilum vinnumarkaðarins í að skoða sérstaklega stöðu ólíkra hópa þegar kemur að fasteignalánum, hver staða þeirra er í raun og veru þannig að unnt verði að bregðast við. Þar mun skipta máli, að sjálfsögðu, að bankarnir beiti sér. Þó að einhverjum kunni að finnast að þeir eigi ekki að hafa neina hlutverki að gegna er það ekki mín skoðun. Þar mun að sjálfsögðu líka skipta máli hvað stjórnvöld gera og við erum auðvitað þegar búin að stíga fyrstu skrefin í að hækka bæði vaxtabætur og húsnæðisstuðning til leigjenda. Þetta erum við að vinna með aðilum vinnumarkaðarins, alveg eins og við ákváðum á sama vettvangi, með aðilum vinnumarkaðarins, að rýna kjör ungbarnafjölskyldna sérstaklega. Það er einn af þeim hópum sem sannarlega þarf að standa vörð um í gegnum svona skafl. Það er alveg ljóst að verðbólga og vaxtastig leggjast misþungt, ekki bara á tekjuhópa heldur líka á fólk eftir því hvar það er statt á æviskeiðinu. Að þessu erum við að vinna.
Hæstv. innviðaráðherra fór mjög vel yfir það sem stendur yfir í vinnu við húsnæðismál og enn og aftur leyfi ég mér að segja að það er ekki fyrr en með þeirri ríkisstjórn sem tók hér við 2017 að lagt er af stað í þá vinnu að móta langtímastefnu í húsnæðismálum þar sem horfst er í augu við það að ríkið hefur þar ákveðnu hlutverki að gegna, að markaðurinn mun ekki leysa öll viðfangsefni á húsnæðismarkaði. Ég segi það líka og viðurkenni það hér að að sjálfsögðu erum við ekki búin að leysa þann vanda og ekki síst vegna þess að okkur er að fjölga töluvert hraðar en spár gerðu ráð fyrir því að það er ekki einungis þegar kemur að verðbólgu sem spárnar rætast ekki, heldur líka þegar kemur að fólksfjölgun, sem er auðvitað fyrst og fremst til marks um þá þenslu sem hér er. Þannig að augljóslega eru viðfangsefnin stór.
Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt að tala eins og hér hafi stoðir velferðarkerfisins verið rifnar undan fólki, saklausu fólki. Svona umræða skilar náttúrlega ekki nokkru. Ég segi það bara algjörlega frá mínum dýpstu hjartans rótum að ég vona svo sannarlega að við getum frekar nota tímann í að sammælast um raunhæfar aðgerðir þannig að ríkisfjármálin haldi áfram að styðja við aðgerðir Seðlabankans til að ná niður verðbólgunni, sem er stóra viðfangsefnið, en gætum um leið sanngirni þegar við ræðum stóru myndina þar sem staða Íslands er sterk. Ég er ekki í nokkrum vafa, út frá öllu því sem við höfum séð, til að mynda bara spám um hagvöxt á þessu ári, að það er mikil trú á íslenska hagkerfið. Það er vegna þess að íslenska hagkerfið er ekki eitthvert einangrað fyrirbæri. Það er vegna þess að það stendur styrkum fótum í öflugu samfélagi, samfélagi sem hefur verið að þróast í rétta átt, alveg sama á hvaða mælikvarða við horfum, okkar eigin velsældarvísa, Social Progress Index eða hvað það er. Þessu vil ég halda til haga um leið og ég segi það líka að ég er þess fullviss að meiri hluti þessa þings mun ná saman um aðgerðir sem munu sannarlega þjóna þessu markmiði, að styðja við þannig að við náum verðbólgunni niður því það er auðvitað stóra verkefnið núna. Það mun skila sér í lægri vöxtum og áframhaldandi lífskjarasókn fyrir Ísland.