Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[18:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu en ég trúi að samtalið sé þess virði. Traust, trúverðugleiki og væntingar hafa bein áhrif inn í efnahagsmálin en þá þarf líka að þora að horfast í augu við stöðuna en ekki koma hingað upp og segja að það sé bara allt í góðu lagi. Nærri 10% verðbólga og 8,75% stýrivextir eru ekki ásættanlegt ástand og ég held að við hljótum að vera sammála um að það verði að bregðast við, enda bitnar þetta harðast á þeim tekjulægstu, skuldsettu og ungu fólki sem hvatt var til að fjárfesta í húsnæði í lágvaxtaparadísinni Íslandi. Við erum ekki sammála um að ríkisstjórnin hafi gert nóg en það virðist af umræðunni sem forystufólki ríkisstjórnarinnar finnist þau bara hafa staðið sig býsna vel, hafi gert nóg. Leggja í langa upptalningu á einhverju sem hefur verið gert á síðustu sex árum eins og ástandið núna sé náttúrulögmál sem þurfi ekki að bregðast við. En svo er ekki. Það verður að taka stór skref til uppbyggingar húsnæðis. Þar hefur ríkisstjórninni mistekist hrapallega og bara fallið á þessu prófi við að tryggja nægt framboð. Ríkisstjórnin hefur líka hafnað öllum tillögum um að koma böndum á leigumarkaðinn og kemur ekki með neinar tillögur til úrbóta. Leigubremsu má alls ekki ræða og engar tillögur í augsýn til að minnka bráða neyð fólks á leigumarkaði. Stærri fyrirtæki sem fá að gera upp í erlendri stöðugri mynt geta vel við unað enda þurfa þau ekki að stóla á fljótandi krónu sem veldur því að hér þarf að hækka stýrivexti margfalt á við það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar, sem þó eru að glíma við verðbólgu en ekkert í líkingu við það sem við erum að upplifa hér.

Herra forseti. Það er ekki hægt að standa hér og benda á verkalýðshreyfinguna sem aðalsökudólginn. Verkalýðshreyfingin var ekki kosin til að stjórna efnahagsmálum á Íslandi heldur til að gæta hagsmuna vinnandi fólks sem finnur harkalega á eigin skinni hvernig efnahagsóstjórnin er að fara með heimilin í landinu. Og það er tómt mál fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og ráðherra Sjálfstæðisflokks að kyrja hér möntruna um að Samfylkingin vilji bara stækka báknið og hækka skatta. Því hvenær töluðum við um fjölgun opinberra starfa? Jú, það var þegar við hvöttum ríkisstjórnina til að fara í kraftmikla innspýtingu starfsfólks í heilbrigðis- og velferðarkerfið. Hvernig var því aftur svarað af ríkisstjórninni? Jú, alveg rétt, með afar óígrundaðri fjölgun ráðherra, eitthvað sem enginn var að kalla eftir og kostar á þriðja milljarð króna. Nú þegar hefur starfsmönnum fjölgað um 25 og starfshópar ráðuneytanna, sem eru á misháum launum, eru orðnir nærri 100 talsins. Þetta er ekki verkefni sem við ráðum við. Þetta er algerlega það sem ríkisstjórnin ákvað að gera. Og hvernig var tillögum okkar um auknar tekjur ríkissjóðs mætt? Tillögur um skattahækkanir á stórútgerðir og banka, til að skapa réttlátara skattkerfi til verndar þeim tekjulægstu og með auknum tekjum af skatti á hina ofurríku? Jú, ríkisstjórnin lækkaði bankaskattinn. Fallið var frá skattheimtu á fiskeldi, veiðigjöldin lækkuð, öll þjónustugjöld hækkuð, gjöld sem lögð eru á einstaklinga óháð tekjum. Jú, vissulega, lægsta skattþrepinu var komið á en það fengu allir, algerlega óháð tekjum upp allan listann, líka þeir tekjuhæstu sem höfðu enga þörf á slíkri ívilnun. En það mátti ekki tala um að hækka persónuafsláttinn. Svei mér þá. Til hamingju Ísland. Ég held að það sé fullreynt með efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar. Það verður ekki búið við þetta mikið lengur. Ég legg til að hæstv. ríkisstjórn fari í kærkomið frí og eftirláti öðrum stjórnartaumana.