Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[18:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða stöðuna í efnahagsmálum og ég verð bara að segja alveg eins og er, ég get ekki skilið á nokkurn hátt þessa ríkisstjórn og allra síst í hvaða himnaríki og fullkomnum heimi hæstv. fjármálaráðherra lifir, að hann skuli geta leyft sér að koma hér upp aftur og aftur og fullyrða það að jafnvel þeir sem eru í neðstu tíund launastigans, eins og hann kallar það, hafi fengið stórkostlegar kauphækkanir. Hann neitar að horfa á staðreyndir málsins því að það er búið að svara því svart á hvítu hvernig skerðingum í almannatryggingunum er háttað. Við vitum að undanfarna áratugi hefur kjaragliðnun hjá eldri borgurum og öryrkjum í almannatryggingakerfinu aukist. Kjaragliðnunin er orðin svakaleg og hún heldur áfram að aukast. Ríkisstjórnin hælir sér aftur og aftur af því að hún setji svo rosalega mikið inn í þetta kerfi að annað eins hafi ekki sést. En eitt passar hún sig virkilega á að nefna aldrei á nafn: Allar skerðingarnar í kerfinu. Frá 2020–2022 hafa skerðingarnar aukist, farið úr 62 milljörðum í 75 milljarða — 13 milljarða kr. aukning í skerðingum. Á hverjum bitnar þetta? Jú, þeim verst settu. Það sem er kannski enn skelfilegra við þetta kerfi eru allir þessir skerðingarflokkar í almannatryggingakerfinu. Það eru skerðingarflokkar upp á 65% skerðingar, 45% skerðingar 38,35% skerðingar, 12,96% skerðingar, 11,9% skerðingar, 9% skerðingar. Þá myndi maður nú halda að það væri búið að telja upp alla skerðingarflokkana, en það er sko alls ekki því að síðan koma 10% búsetuskerðingar og svo skerðingar á barnabótum, húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisbótum. Hvernig haldið þið að þeir einstaklingar sem lenda í öllum þessum skerðingum geti lifað af fjárhagslega? Staðreyndir tala sínu máli. Þeir sem lenda verst í þessu, bæði innan almannatryggingakerfisins og alla leið yfir í félagsbótakerfið, fá ekki neinar kauphækkanir. Þetta fólk er alltaf að fá minna og minna og þarf að þrengja sultarólina, allt í boði þessarar ríkisstjórnar. Á sama tíma hikar þessi ríkisstjórn ekki við það að setja alla ábyrgð á Seðlabankann. Hvað gerir Seðlabankinn? Jú, hann gerir auðvitað eins og sannur fjárhagslegur hryðjuverkamaður gerir; hækkar stýrivexti. Það er það eina sem hann segist geta gert, hækka þá upp úr öllu valdi. Það veldur því, hugsið ykkur, að lán stökkbreytist. Afborgun upp á rétt rúmar 200.000 kr. af láni sem fólk er með er komin í 450.000 kr. á mánuði. Það er sendur aukavíxill upp á 200.000 kr. í heimabanka þessa fólks í hverjum einasta mánuði. Ég spyr: Hvernig er þetta hægt? Hvernig getum við leyft okkur þetta? Á sama tíma ætlum við að fara að tala um tugþúsunda, jafnvel 100.000 kr. hækkanir fyrir æðstu embættismenn þjóðarinnar meðan það er fólk þarna úti sem á ekki fyrir mat, á ekki fyrir lyfjum, á ekki fyrir læknisþjónustu, á ekki fyrir því að lifa.