Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegur forseti. Efnahagsaðstæður okkar Íslendinga hafa tekið töluverðan viðsnúning á síðustu árum. Áskoranirnar hafa verið þó nokkrar; heimsfaraldur Covid-veirunnar, stríð í Úkraínu og nú sú töluverða verðbólga sem við horfum upp á í dag. Eftir þrettándu stýrivaxtahækkunina í röð er skiljanlegt að samfélagið sé þreytt. Hækkanir bíta verulega, matarkarfan og lánin verða dýrari og húsnæðismarkaðurinn er frosinn. Aðstæður eru erfiðar og stjórnvöldum ber að finna leiðir til lagfæringar. Til að hægt sé að ná niður verðbólgunni sem hraðast niður þurfum við öll að leggja hönd á plóg og sýna það í verki, hvort sem það er ríkið, atvinnurekendur eða samfélagið í heild. Ríkisstjórnin hefur brugðist við með auknu aðhaldi í fjármálum næstu tvö árin. Ásamt því að auka aðhald ætlum við að horfa til fjölgunar tækifæra til hagræðingar. Tækifærin til að nýta tæknina enn betur eru til staðar, bæði til að draga úr útgjöldum og bæta þjónustu við almenning. Einnig ætlum við að nýta betur þá húsakosti sem ríkið hefur til umráða ásamt því að sameina stofnanir þar sem það á við. Það er mikilvægt að minnast á það að við höfum fjölmörg tækifæri til að veita aðhald án þess að það hafi talsverð áhrif á þjónustustigið.
Mikilvægi þess að sýna aðhald á tímum sem þessum er óumdeilt, en það hefur alltaf verið erfitt að taka þá ákvörðun að lækka fjárútlát til verðugra málaflokka og verkefna. Ríkisstjórnin var raunsæ á aðstæður og lagði áherslu á mikilvægi þess númer eitt, tvö og þrjú að niðurskurðarhnífurinn kæmi ekki nálægt heilbrigðis- og velferðarþjónustu hér á landi. Það hefur alltaf verið okkar hagsmunamál í Framsókn að heilbrigðis- og velferðarþjónusta skuli tryggð, óháð efnahagssveiflum, og það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Við erum til að mynda að stíga stór skref í að efla heilbrigðiskerfið til framtíðar. Þar er hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, að ganga í mikilvæg verkefni og það er ánægjulegt að engum fjárhagslegum brekkum verður þar bætt við. Stærsta verkefnið er án efa áframhaldandi uppbygging nýs Landspítala. Um er að ræða uppbyggingu lífsnauðsynlegra innviða fyrir samfélagið allt og við megum ekki stíga á bremsuna. Gert er ráð fyrir að enn meiri kraftur verði færður í uppbyggingu á næsta ári. Í öðrum málaflokkum, að undanskildum löggæslu, verður aðhaldi beitt og fjármunum forgangsraðað í þágu viðhaldsuppbyggingar þeirrar grunnþjónustu sem hið opinbera veitir. Sem dæmi má nefna vegamál en um 32,5 milljörðum kr. verður bætt í útgjöld til vegamála á næstu árum. Á móti falla niður tímabundin útgjöld sem m.a. leiða af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar sem var innspýting ætluð til þess að sporna við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. En heimsfaraldurinn en liðinn og því er hægt að forgangsraða fjármunum á annan hátt. Það þýðir þó ekki að fjárfestingar til vegaframkvæmda stoppi. Þvert á móti munum við halda áfram að fjárfesta í mikilvægum samgönguinnviðum um allt land. Fjármögnun til frekari uppbyggingar og viðhalds á vegakerfinu verður aukin á næsta ári og fer stigvaxandi á hverju ári í kjölfarið. Þetta er til að mynda gríðarlegt byggðamál en það eru mörg samgönguverkefni á landsbyggðinni sem þola ekki bið.
Einnig er einnig vert að ræða mál málanna í dag, húsnæðis og leigumarkaðinn. Við erum öll meðvituð um að þörf er á frekari aðgerðum á húsnæðismarkaði og þá sérstaklega í þágu ungs fólks og annarra fyrstu kaupenda. Ásamt þessu þarf að standa vörð um viðkvæma hópa á leigumarkaði. Það eiga allir að geta tryggt sér þak yfir höfuðið. Verkefnið er margþætt og það er engin ein töfralausn til staðar, því miður. Ríkisstjórnin ætlar að ráðast í fjölmargar aðgerðir í því skyni að standa vörð um umrædda hópa og koma húsnæðismarkaði á réttan kjöl. Sem dæmi má nefna hækkun húsnæðis- og vaxtabóta auk hærri skerðingarmarka og eflingu barnabótakerfisins. Mest aðkallandi verkefnið er þó að byggja meira og auka með því framboð á íbúðum, sérstaklega íbúðum fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði. Í júlí í fyrra kynnti hæstv. innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson rammasamning þess efnis að byggja 35.000 íbúðir á næstu tíu árum. Þetta krefst samvinnu ríkis og sveitarfélaga og einkaaðila og horfi ég bjartsýnn á það að þessu markmiði verði náð.
Virðulegur forseti. Það fer enginn leynt með það að við glímum við erfiðar áskoranir í efnahagsmálum. Við þurfum þó að halda áfram í takt við kröfurnar og horfa bjartsýn fram á veginn. Verkefnið er stórt og besta leiðin til að takast á við stór verkefni er að gera það saman.