Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[19:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stöðu efnahagsmála og það er ekki að ástæðulausu sem við gerum það. Við erum að upplifa mestu verðbólgu frá hruni og eru vaxtahækkanir Seðlabankans farnar að bíta og hafa verulega erfið áhrif á stöðu almennings sem trúði fagurgala Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda síðustu kosninga um lágvaxtalandið Ísland, land tækifæranna. Fjármálaráðherra tönnlast stanslaust á því að heimilin hafi aldrei haft það betra og neitar að horfast í augu við veruleikann. Staða margra er sú að þau fengu launahækkun upp á 30–60.000 en á sama tíma hefur afborgun af óverðtryggða láninu þeirra með breytilegu vöxtunum hækkað um 150.000 eða meira. Kannski þarf hæstv. fjármálaráðherra bara að finna sér nýtt starf og skila lyklunum, eins og rætt hefur verið um einhvern tímann áður. Verð lífsnauðsynja hefur verið að hækka langt umfram vísitölu. Má þar t.d. nefna grænmeti og ávexti sem hafa hækkað um 25% á rúmu ári samkvæmt verðlagskönnun ASÍ, mjólkurvörur um tæp 14% og kaffivörur um rúm 16%. Allt þetta hefur gert það að verkum að mörg heimili berjast nú í bökkum og safna skuldum þrátt fyrir fullyrðingar ráðherra um annað.

Fjármálaráðherra heldur því einnig statt og stöðugt fram að of miklar launahækkanir að undanförnu séu að valda þessari verðbólguaukningu, almenningur sé að eyða of miklu. Þær krónutöluhækkanir sem lífskjarasamningarnir skiluðu voru ekki þess valdandi að setja hér allt á hliðina. Lægst launuðu hóparnir fengu vissulega hlutfallslega meiri hækkanir, aðrir fengu minni hækkun, en allar þessar hækkanir voru alveg í samræmi við þann hagvaxtarauka sem varð á þessu tímabili.

Það eru aðrir kraftar en launabreytingar sem hafa miklu meiri áhrif á þá þenslu sem nú er. Eftir Covid tók ferðaþjónustan við sér svo um munaði með tilheyrandi ruðningsáhrifum. Það hafði áhrif á alla þætti samfélagsins. Eftirspurn eftir vinnuafli jókst mikið og það hafði m.a. þau áhrif að flytja þurfti inn starfsfólk. Einhvers staðar varð fólk að búa og það jók eftirspurn eftir húsnæði og hefur haft mikil áhrif á íbúðamarkaðinn. Bílaleigur hafa þurft sitt og auðvitað þurfa ferðamenn að fá þjónustu og mat. Allt þetta hefur áhrif á verðlag í landinu.

Við þingmenn Viðreisnar höfum svo ítrekað bent á að ríkisfjármálin eru beinlínis að valda verðbólgu. Það að halda því fram að verðbólgan sé bara drifin áfram af hækkun launa er fásinna. Það er auðvitað þægilegt fyrir ríkisstjórnina að benda bara á verkalýðshreyfinguna og líta ekkert í eigin barm. Staðreyndin er hins vegar sú að verkalýðshreyfingin þarf að starfa innan íslensks raunveruleika. En hver er hann? Hann er eins og veðrið á Suðurnesjum síðustu daga en þar hefur verið vindasamt, kalt og blautt. Íslenskur veruleiki er sveiflukenndur með viðvarandi vaxtahækkunum og litlum félagslegum stöðugleika.

Forseti. Við þurfum á því að halda að hér taki við ríkisstjórn sem hefur það á sínum verkefnalista að tryggja íslenskum almenningi stöðugan gjaldmiðil, sambærileg vaxtakjör og í nágrannalöndum en umfram allt, virðulegur forseti, félagslegt öryggi.