Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[19:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stöðuna núna varðandi verðbólgu og vaxtahækkanir verður að skoða í því samhengi að það hafa aldrei fleiri keypti sína fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021. Aðstæður þá voru góðar. Það var talað um að tími verðtryggðra lána væri liðinn. Tveimur árum seinna er verðbólgan 10% og stýrivextir Seðlabankans tæplega 9%, standa í 8,75%. Nú er ekki búist við því að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu náist fyrr en árið 2027. Unga fólkið sem keypti fyrstu íbúðina árið 2021 býr ekki lengur í lágvaxtalandi. Því fer fjarri, við erum nær því að vera Evrópumeistarar í vaxtahækkunum. Verðbólgan er víða en eftir stendur að vextir á Íslandi hafa hækkað margfalt á við önnur ríki þar sem verðbólgan er svipuð. Það er kostnaðurinn við hinn séríslenska gjaldmiðil. Þetta nefni ég sérstaklega núna þegar hæstv. fjármálaráðherra labbar hér inn í salinn.

„Vandi okkar er sá að við höfum dálítið tapað trú fólks á að við náum verðbólgunni niður. Það verður að breytast“, sagði hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kynnti fjármálaáætlun sína fyrir árin 2024–2028. Vandi almennings er að þetta mat fjármálaráðherra er rétt. Skilaboð Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum voru að flokkurinn byði þjóðinni land tækifæranna. Stöðugleikinn var það sem gerði Ísland að landi tækifæranna og kjósendur höfðu samkvæmt formanni flokksins val um stöðugleika eða óvissuferð. Fjármálaráðherra minnti þá á það að tugþúsundir Íslendinga væru með lægri afborganir vegna þess að vextir væru lágir. Skilaboðin voru jafnframt þau að þessi staða væri engin tilviljun. Þessar tugþúsundir Íslendinga finna núna harkalega fyrir því að óvissuferðin var þegar allt kom til alls í boði Sjálfstæðisflokksins og efnahagsstjórnar hans.

Í síðasta fjárlagafrumvarpi blasti við að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega ætlaði sér einfaldlega ekki að taka þátt í baráttunni gegn verðbólgu. Seðlabankastjóri og allir álitsgjafar sögðu hið sama um það frumvarp, að það gerði baráttuna við verðbólgu erfiðari. Viðreisn lagði þá mikla áherslu á að fjárlagafrumvarpið næði því fram að berjast með Seðlabankanum og gegn verðbólgu. Við lögðum fram nokkrar breytingartillögur. Við vorum ein um hagræðingartillögur, m.a. um það að skuldir ríkisins yrðu lækkaðar um 20 milljarða strax á þessu ári, við vorum með tillögur um fækkun ráðuneyta, við lögðum fram tekjuöflunartillögur um hækkun veiðigjalda, um hækkun kolefnisgjalds sömuleiðis, og við lögðum fram tillögur til að mæta veruleika ungs fólks og tekjulágs fólks í þessum aðstæðum núna með hærri vaxta- og húsnæðisbótum og barnabótum. Tekjur okkar voru hærri en gjöld. Allar voru þessar tillögur Viðreisnar felldar og fjárlögin enduðu í 120 milljarða mínus í því ástandi sem við erum núna.

Vaxtakostnaður er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins sem hefur auðvitað áhrif á getu ríkisins til að fjárfesta í innviðum og þjónustu fyrir fólkið í landinu. Þessi vaxtakostnaður sýnir kannski að ríkið er þar í svipaðri stöðu og heimilin. Lán ríkisins eru að verða dýrari. Í fjármálaáætlun segir núna, og reyndar það sem blasti líka við þegar vorum að fjalla um fjárlögin, með leyfi forseta:

„Minni halli dregur einnig úr þörf Seðlabankans á að hækka stýrivexti.“

Þrátt fyrir að samhengið sé augljóst þá gerist lítið sem ekkert. Það er verið að tala um aðgerðir einhvern tíma seinna, mögulega og seinna. Fyrir síðustu kosningar sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Við þurfum öll að borga fyrir ábyrgðarleysi með hærri afborgunum um mánaðamótin, í hærri sköttum á launaseðlinum og í hærra verði á kassanum úti í búð.“

Og allt er þetta því miður að ganga eftir því að ábyrgðarleysi hefur afleiðingar og það kostar. Því finna heimilin og fyrirtækin í landinu fyrir núna. Þau greiða hátt gjald fyrir þetta ábyrgðarleysi.